140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:33]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum er mikil handvömm og spegilmynd af því ráðleysi sem ríkir hjá ríkisstjórn Íslands, ráðleysi og algjörlega skert útsjónarsemi, skynsemi og tillitssemi. Þetta frumvarp er því miður eins og flest mál hæstv. ríkisstjórnar bögglauppboð til þess eins að efla vanda samfélagsins í stað þess að leysa hann og láta hjólin snúast áfram en ekki aftur á bak.

Ráðleysið sýnir sig á þann hátt að það er enginn húsbóndi á bænum. Húsbóndinn er farinn til Brussel og ræktar þar radísugarða og á því á íslenska þjóðin að lifa, en hún lifir ekki á radísum einum saman. (Gripið fram í: Það er nú ekki allt kolómögulegt.) Hún lifir á handverki, drifkrafti, trú á land og þjóð. Það er ekki það sem hæstv. ríkisstjórn elur á. Hún dregur máttinn úr þjóðinni, hún dregur vonina niður.

Hörmulegar fréttir þessa dagana, virðulegi forseti, er hluti af spegilmynd samfélagsins þar sem bráðungt fólk gefst upp fyrir lífinu. Um það getum við aldrei kennt neinum einum en tíðarandinn er neikvæður og tíðarandinn kallar fram þetta vonleysi, þessa uppgjöf. Við eigum ekki að horfa fram hjá því. Þar erum við öll ábyrg og við eigum ekki að leyfa stjórnvöldum landsins að komast upp með slíkan yfirgang og valdníðslu sem hæstv. ríkisstjórn gerir frá degi til dags, viku til viku, mánuði til mánaðar, ári til árs. (Gripið fram í.)

Þetta frumvarp skekkir stöðu heimilanna enn eina ferðina, flestra fyrirtækja og þjóðfélagsins í heild. Þjóðfélagið er sett í spennitreyju þar sem falsvonir eru bornar á borð og þegar kafað er ofan í það sem menn kalla hlunnindi fyrir framtíðina þá er það byrlun. Talað er um að eitri sé byrlað. Byrlun skoðana, falsvona, svartsýni og örvæntingar er ekki síður hættuleg byrlun en talað er um í duftformi.

Þessi ríkisstjórn flakar von landsmanna inn að beini og þetta frumvarp er spegilmyndin af því, spegilmyndin af dugleysinu, draugagangur í björtu. Það er nóg að búa við draugagang í myrkri en hæstv. ríkisstjórn skirrist ekki við að vaða fram með draugagang í björtu.

Það hefur verið talað um orðnotkun hér í þinginu, virðulegi forseti, að það gangi stundum svolítið snarpt. Orðnotkun í þinginu þegar horft er til margra áratuga speglast af stöðu mála hverju sinni. Ef það er upplausn og vandræðagangur kveða menn fastar að orði. Það er eðlilegt. Af hverju ættum við Íslendingar að tala eitthvert tæpitungumál sem búum við eins myndrænt mál og íslenska tungu, myndrænna mál en hjá mörgum öðrum þjóðum á okkar jörð? Við eigum ekki að fela meininguna með einhverju lélegu smjörlíki, við eigum að leggja spilin á borðið og krefjast þess að menn vinni af heilindum.

Það er ekki afsökun fyrir hæstv. ríkisstjórn að segjast vera að gera góða hluti jafnvel þótt að hún trúi því sjálf. Auðvitað er hæstv. ríkisstjórn ekki svo skyni skroppin að hún sjái ekki að þetta gengur ekki upp. Hún er ekki að gera góða hluti, hún er að gera vonda hluti. Það er þrengt að öllu. Þetta frumvarp vinnur aðeins að því í rauninni að hækka enn frekar gjöld á fólkið í landinu. Laumast er inn með það bakdyramegin með sluffu á blómvendinum og jafnvel sluffan er falsvon líka. Það er lokað á alla drift sem neyðir fólk til að fara að spila á kerfið.

Gott dæmi eru mjög falsaðar tölur yfir þá Íslendinga sem hafa farið úr landi. Fölsuðu tölurnar eru a.m.k. hundruð Íslendinga sem hafa farið til annarra norrænna ríkja, Vesturheims og víðar í skjól en haldið lögheimili á Íslandi af því að þau vilja vera á Íslandi en hafa neyðst til að flýja dugleysi og vonleysi hæstv. ríkisstjórnar. Þetta fólk á börn. Það reynir að halda í öryggið fyrir börnin sín því að ef það kemur aftur til Íslands nýtur það ekki réttinda fyrr en eftir a.m.k. hálft ár ef það lætur lögskrá sig erlendis sem það ætti að gera. Þannig er þetta fólk neytt til að spila á kerfið og það er ekki hægt að gagnrýna það. Það er ekki hægt að gagnrýna það af því að það er skiljanlegt. Að ríkisstjórn Íslands skuli bjóða upp á slíka aðstöðu sem setur fólki þannig stólinn fyrir dyrnar og herðir að hálsi þess í möguleikum þeirra til að sjá sér og sínum farborða á mannsæmandi hátt sem Íslendingar.

Land okkar býr við auðlindakost í hverju fótmáli. Við þurfum fólk sem sýnir drifkraft, við þurfum duglega sjómenn, snjalla skipstjóra, iðnaðarmenn, hvar sem menn vinna verkin sem halda samfélagi okkar á floti. Það er engin ástæða til að gera lítið úr embættismönnum eða ýmsum sérfræðingum, arkitektum eða öðrum sem vinna sérhæfða vinnu miðað við menntun sína, en það er alveg klárt að sú yfirbygging er stundum allt of stór. Tekjurnar fyrir þjóðfélagið í heild ráðast af höndum hins vinnandi manns til sjós og lands þar sem reynslan og verksvitið vegur þyngst, ekki hvunndagsspjall á kaffistofum í skrifstofum landsins þó að það sé allt í lagi út af fyrir sig en það ræður ekki úrslitum í þessum efnum. Það er verkafólkið í landinu, það eru sjómennirnir, það er fólkið í heilbrigðisstéttunum, menntakerfinu, fólkið sem vinnur lykilhlutverk í límingu eins þjóðfélags, límingu þjóðfélagsins Íslands.

Það er auðvitað grábölvað, virðulegi forseti, að á sama tíma og við reynum að skerpa hlutina, læra af hlutum og komast áfram til betri framtíðar fyrir Ísland er til að mynda annar ríkisstjórnarflokkurinn, Samfylkingin, að djöflast í því að koma okkur inn í kotbúskap Evrópusambandsríkjanna, gera okkur að tyrknesku þorpi. Íslendingar vilja ekkert að Ísland verði tyrkneskt þorp. Látum Tyrkina um það og óskum þeim velfarnaðar en Íslendingar vilja vera sjálfstæð þjóð með bjarta framtíð sem hún á að vera trygg ef við vinnum hlutina eins og menn. Það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki og þess vegna er þetta frumvarp skelfilegt yfirvarp fyrir því að auka enn frekar skatta, forsjárhyggju, taka frumkvæðið af fólki og draga úr því máttinn.

Sagt er að nýir skattar sem settir eru hafi reynst vel erlendis. Hvílíkt kjaftæði, virðulegi forseti. Við skulum bara miða við okkar aðstæður, okkar möguleika, okkar reynslu og okkar verksvit. Við eigum nóg af fólki til þess að takast á við þau verkefni ef við þorum að sýna djörfung og dug.

Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að þessi skattur gæti skilað 5 milljónum til hverrar fjölskyldu af 1.500 fjölskyldum í stað þess að fara í ríkishítina og hverfa niður í ræsið sem ekkert skilur eftir. Menn hljóta að fara að opna augun fyrir því að miklu fremur en að fara þessa leið verður að lækka skuldir yfir línuna svo um munar, komast yfir þann ótta sem íslensk stjórnvöld sýna erlendum fjárfestum sem notuðu fjármagn sitt í íslenskum fjármálastofnunum sem beitu á Íslendinga, tiltölulega saklausan almenning á Íslandi sem átti að gleypa þessa silfurbeitu og kokgleypa síðan vandann sem fylgdi, en fjárfestarnir hafa lagt ofurkapp á það að bera enga ábyrgð. Íslensk stjórnvöld verða að taka af skarið vegna þess að neyðarstaða gefur neyðarrétt. Þá er að duga eða drepast sem stjórnmálamaður og taka af skarið þar sem fólkið okkar á að njóta vafans en ekki erlendu fjárfestarnir og fjármálafíklarnir sem stjórnuðu bankakerfinu og stjórna því því miður enn að mörgu leyti. Það hefur sýnt sig í allri umfjöllun um grunninn að þessum vanda að fjölmargir, tugir bankamanna, sem hefðu átt að hverfa úr bönkunum einn góðan dag fyrir árum sitja þar enn og sauma í gömlu mynstrin, reyna að búa til sama farveginn þar sem allt er gert á skjön við eðlilegt líf í landi okkar. Þetta er verkefni sem við hljótum að þurfa að taka á fyrr en varir.

Nýir skattar endalaust. Í stóru og smáu eru það tilskipanir frá Brussel sem ríkisstjórnin heldur ekki vatni yfir og þrengir að drifkrafti á Íslandi. Bændur á Hólsfjöllum hafa orðið fyrir barðinu á þessum vangaveltum án þess að mál séu krufin til mergjar, könnuð til hlítar, áður en skellt er dyrum, sem vel kann að vera að þurfi að gera. Ein krafan var sú að bændur á Hólsfjöllum ættu allt í einu að girða í kringum fjárstofninn sinn, þúsund fjár og girðingarnar kostuðu milljónir. Hvað er slíkur bóndi, sem er gott dæmi, með margar kindur í dag? Hann er ekki með þúsund kindur heldur 60–70 kindur af því að hann réð ekki við fleiri girðingar. (Gripið fram í.) Þannig er svo margt í þjóðfélaginu sem verður því miður til að drepa landið í dróma, draga kjarkinn úr fólki.

Í sjávarútveginum, sem er kjarni þess að við lifum í þjóðfélaginu og verjum velferðarkerfi okkar, hefur gengið allvel á undanförnum árum, að hluta vegna þess að gengið hefur verið hagstætt þessum aðalatvinnuvegi okkar, en í skúffum bíða milljarðar króna í mörgum verstöðvum landsins til að fara í drift og uppbyggingu, endurbyggingu og lagfæringar sem fyrirtækin leggja ekki í vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki tekið af skarið um það hvort þessi fyrirtæki eigi rétt til að lifa næstu nótt. Sem betur fer er slíkur kraftur og skynsemi í þorra athafnamanna hér á landi að þeir láta ekki bjóða sér slíkt, frekar halda þeir sjó við býsna erfiðar aðstæður en að láta lokka sig í einhverja vitleysu, í eitthvert pókerspil hæstv. ríkisstjórnar sem veit ekkert hvað snýr upp eða niður og veit ekki einu sinni hvað mörg spil eru í spilastokk hennar því að þar rekst allt á annars horn.

Þetta frumvarp gengur gegn venjulegu fólki. Við megum ekki láta akademísku þekkinguna ráða ferð í þessu máli. Hún er góð með en hún er frekar skraut á tertuna en kjarninn á heimareykta hangikjötinu sem menn hafa nefnt hér að við þurfum að rækta eins og annað gott í samfélaginu. Við þurfum líka að viðurkenna að margir nýgræðingar hafa komið til leiks við stjórn landsins. Það tekur nokkur ár að læra að verða þingmaður, virðulegi forseti, og þess vegna þurfa menn að hjálpast að í staðinn fyrir að keyra hver yfir annan.

Það sem skiptir máli er að vinna til árangurs (Forseti hringir.) en ekki aftur á bak.