140. löggjafarþing — 37. fundur,  16. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[00:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fjársýsluskatt sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram á haustþingi þar sem áætlað er að leggja 10,5% skatt á eftirtalda aðila: Hlutafélög, vátryggingafélög og Evrópufélög samkvæmt lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða sem og önnur fjármálafyrirtæki, samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, á lífeyrissjóði sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og í fjórða lagi á útibú, umboðsmenn og aðra sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka starfsemi hér á landi samkvæmt 1.–3. tölulið.

Jafnframt má sjá í 3. gr. frumvarpsins að opinberar stofnanir sem stunda starfsemi sem fellur undir 1. og 2. tölulið 2. gr., eru undanþegnar skattskyldu samkvæmt lögum þessum en sérstaklega er tekið fram að Íbúðalánasjóður sé skattskyldur samkvæmt lögum þessum.

Þannig lagði hæstv. fjármálaráðherra frumvarpið fram á haustdögum. Frumvarpið fór síðan til meðferðar efnahags- og viðskiptanefndar og tók þar allhressilegum breytingum. Af umsögnum um frumvarpið að dæma ætti eiginlega að kalla það klúður vegna þess að flestallar umsagnirnar sem inn komu fela í sér varnaðarorð og frumvarpið er talið illa ígrundað í alla staði. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða umsagnir fjármálastofnana, Bankasýslu ríkisins eða Fjármálaeftirlitsins, alls staðar er varað við því sem hér er lagt til.

Lífeyrissjóðirnir töldu að algerlega óheimilt væri að skattleggja þá eins hér segir, en eins og flestir vita sem fylgst hafa með umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fleiru er skattlagning af þessu tagi ætluð til að greiða m.a. vaxtabætur sem ríkisstjórnin ákvað að veita en var ekki búin að finna tekjustofna til að standa undir því áður en sú ákvörðun var tekin. Í upphafi var áætlað að skattur þessi ætti að skila 4,5 milljörðum en hann mun í staðinn skila 2,2 milljörðum. Til að vega upp á móti því tekjutapi sem sem ljóst er að verður vegna þess að prósentutalan er lækkuð úr 10,5 í 5,45, á að leggja á 6% skatt á hagnað fjármálafyrirtækja umfram tiltekin mörk. Það þýðir að þrjár fjármálastofnanir, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn þurfa að greiða 6% skatt af hagnaði umfram ákveðin mörk. Í raun felur fjársýsluskatturinn í sér skattlagningu upp á 5,45% og auk þess þurfa þrír stærstu bankarnir að greiða 6% sérstakan skatt vegna hagnaðar til að vega upp á móti því sem á vantar.

Segja má að með því séu hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra enn einu sinni á þeim skamma tíma sem þau hafa setið í ríkisstjórn að flækja skattamálin, flækja skattumhverfið þannig að það fer að verða flestum nær óskiljanlegt.

Skatthlutfall fjársýsluskattsins er lækkað í 5,45% en 1. minni hluti nefndarinnar bendir þó á að raunveruleg áhrif fjársýsluskattsins verði 6,71% þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki sem rekin eru með hagnaði. Það er alveg með ólíkindum hvernig hæstv. ríkisstjórn tekst á engum tíma að flækja skattkerfið þannig að furðu sætir.

Það er líka ljóst að með breytingum sem meiri hlutinn hyggst gera á því frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði fram á haustdögum er ákveðið að fallið verði frá skattskyldu lífeyrissjóðanna. Þeir fá ekki á sig fjársýsluskatt vegna varnaðarorða þeirra sem og hótana um málaferli ef af yrði. Þess vegna ákvað meiri hluti nefndarinnar að undanskilja lífeyrissjóðina. En hvað þýðir það? Það þýðir að staða meðal annars erlendra aðila sem og lífeyrissjóða er styrkt á kostnað banka og sparisjóða hvað varðar séreignarsparnað og markað íbúðalána. Í dag eru lífeyrissjóðirnir með um 15% markaðshlutdeild í íbúðalánum, bankarnir með um 27% og Íbúðalánasjóður með 58%. Ég geri ráð fyrir að samþykktin nái fram að ganga vegna þess að meiri hluti lagði þetta til, meiri hluti stjórnarflokkanna mun greiða atkvæði með auknu flækjustigi í skattamálum og ójafnvægi milli aðila á íbúðalánamarkaði. Það verður ójafnvægi milli þeirra sem borga fjársýsluskatt og hinna sem ekki þurfa að borga skattinn. Það sýnir svart á hvítu hvað þessi fjársýsluskattur er afkáralegur og í raun algerlega út í hött.

Þetta er ákveðinn popúlismi vegna þess að í samfélagi okkar eftir hrun eru fjármálastofnanir af hinu vonda og er ekki úr vegi að þær verði látnar greiða fyrir hvernig þær höguðu sér og komu þjóðinni, fjölskyldum og heimilum í þá stöðu sem við erum í í dag. En málið er ekki svo einfalt vegna þess að þessar fjármálastofnanir vinna nú flestar með fjármuni Íslendinga, íslensku þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti. Ef við eigum eitthvað afgangs leggjum við það inn til ávöxtunar. Það er alveg ljóst að aukin skattlagning kallar á það að ýmiss konar gjöld, þjónustugjöld og annars konar gjöld, hækka þannig að það verður eins og alltaf, neytandinn, fólkið í landinu greiðir skattinn eða gjöldin til að fyrirtækin og fjármálastofnanirnar geti staðið straum af skattlagningu ríkisstjórnarinnar.

Það sem er það dapurlegasta af öllu við þennan skatt er að ríkisstjórnin er ber að því að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu. Það kemur í ljós í því sérkennilega frumvarpi sem hér er til umræðu. Ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem sumir kalla norræna velferðarstjórn, ríkisstjórn jafnaðarmanna, ríkisstjórn jöfnuðar — hvað ætlar hún að gera og hvað er hún að gera?

Virðulegur forseti. Það stendur skýrt og skilmerkilega á bls. 9 í frumvarpi til laga um fjársýsluskatt frá hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi“ — og ég bið virðulegan forseta og aðra að hlusta nú — „nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.“

Svo mörg eru þau orð, frú forseti. Það er sem sagt rétt að færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi á sama stað og aðrar greinar atvinnulífsins, atvinnugreinarnar sem eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur að nýráðningum. Það er kjarninn í þessu frumvarpi hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og kristallast í þessum orðum á bls. 9 í frumvarpi um fjársýsluskatt. Það er ríkisstjórn Íslands sem kennir sig við norræna velferð sem ætlar með þessari skattlagningu að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum.

Er nema von, frú forseti, að endrum og sinnum ofbjóði ekki bara þingmönnum stjórnarandstöðunnar heldur líka fólkinu í landinu það sem verið er að gera? Kannski er það ekki hrein fyrirætlan og við skulum vona að það sé ekki klár ætlun ríkisstjórnarinnar almennt að búa atvinnulífinu þannig rekstrarumhverfi að það dragi úr launahækkunum en haldi aftur af nýráðningum, en það stendur hér svart á hvítu í frumvarpinu, áhrif fjársýsluskattsins eru beinlínis í þá veru, klárt og kvitt.

Við greiddum atkvæði í morgun um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem hækkaðar voru álögur og gjöld sem ganga beint til hækkunar lána fjölskyldna og einstaklinga í landinu, hækkanir sem rýra ráðstöfunartekjur fjölskyldna í landinu, og hér bætist við enn einn skattur sem er til þess fallinn að færa rekstrarumhverfi fjármálastofnana í þá veru að draga úr launahækkunum og falla frá nýráðningum. Dapurlegra getur það vart orðið. Mér er til efs að nokkur ríkisstjórn hefði staðið jafnsérkennilega að verki og þessi við að koma samfélaginu út úr þeirri kreppu sem hér skall á við efnahagshrunið í október 2008. Mörg þeirra frumvarpa sem ríkisstjórnin leggur fram eru jafnvanhugsuð og þetta frumvarp en meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar á þó heiður skilinn fyrir þær breytingar sem þó eru gerðar á frumvarpinu með lækkun prósentuhlutfallsins úr 10,5% í 5,45%. Nefndin leggur hins vegar sérstakan skatt upp á 6% til að standa straum af því tekjutapi sem lækkun hlutfallsins mun valda.

Frú forseti. Ég ítreka að nefndin á heiður skilinn fyrir það sem hún reynir þó að gera til að lagfæra það frumvarp sem kemur frá hæstv. fjármálaráðherra og hún tekur tillit til varnaðarorða sem koma fram í umsögnum um frumvarpið. Það er að sjálfsögðu af hinu góða. En ég ítreka enn að ég held ég hafi sjaldan séð — ég á reyndar ekki mjög langa þingsetu að baki, en ég held ég hafi aldrei séð jafndapurlegan vitnisburð um nokkurn ráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gefur sjálfum sér á bls. 9 í þessu frumvarpi þar sem beinlínis er sagt að auknar álögur af þessu tagi færi rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar búa við. Þær eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum. Það er algerlega andstætt því sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til. Við viljum hvetja til öflugs atvinnulífs, draga úr álögum á fólk og fyrirtæki til að breikka skattstofna, auka tekjur, fá fólk úr atvinnuleysi í atvinnu vegna þess að við erum þeirrar skoðunar að öflugt atvinnulíf og stöðugt og öruggt skattumhverfi sem því fylgir kalli á fjárfestingar innlendra sem erlendra aðila. Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar, hvort sem er hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem nú ræður ríkjum eða ríkisstjórn einhvers annars forsætisráðherra. Það er grundvallaratriði fyrir velferð í landinu að hér sé öflugt atvinnulíf, fjárfestingar og framkvæmdir. Öðruvísi er ekki hægt að standa undir öflugu velferðarkerfi, hvorki heilbrigðiskerfi, bótakerfi né menntakerfi. Það er þannig, frú forseti. Þessari ríkisstjórn virðist gersamlega fyrirmunað að skilja að þannig væri því betur farið en að leggja sífellt meiri skatta á fyrirtæki í þessu landi af hvaða toga sem þau eru. Auknar álögur með einum eða öðrum hætti eru leiðarljós ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í þeim efnahagsvanda sem blasir við þessari þjóð. Það er dapurlegur dómur yfir ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð.

Ég leyfi mér enn og aftur að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir þær breytingar sem hún hefur þó gert á þessu arfagalna frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram um fjársýsluskatt.