140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að benda á óhæfuverk sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hyggst framkvæma nú á lokadögum þingsins. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mun síðar í dag leggja fram til 2. umr. frumvarp sem kveður á um að Íslendingar greiði allt að 37,2 milljarða íslenskra króna í aukið stofnfjárframlag til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessu á að lauma í gegn í skjóli þess asa sem nú er í þinginu.

Aukning stofnfjárframlagsins (Gripið fram í.) er meðal annars til að standa straum af fjárhagsaðstoð við fallvölt aðildarríki stofnunarinnar. Fyrsta framlagið, 9,3 milljarðar kr., verður greitt af gjaldeyrisvarasjóði Seðlabanka Íslands, í gjaldeyri, eftir að frumvarpið hefur verið samþykkt. Afgangurinn, 27,9 milljarðar kr., verður geymdur í Seðlabanka Íslands, tiltækur fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um leið og sjóðurinn þarfnast peninganna.

Stjórnarliðar munu nú eflaust hópast í ræðustól og reyna að telja landsmönnum trú um að þetta sé einungis bókhaldslegt atriði. En ég bið þá sem er annt um fjárhagslegt sjálfstæði Íslendinga að biðja þessa sömu stjórnarliða að útskýra nákvæmlega í hverju þessar bókhaldsbrellur eru fólgnar. Það er vegleg jólagjöf sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur færir bákninu í Washington þessi jólin, bákninu sem reyndi að þvinga okkur til að borga Icesave. (Gripið fram í.)