140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni landsdómsmálið svokallaða gegn Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Við skulum aðeins hugsa það hvaða aðstæður voru uppi þegar málið var afgreitt í Alþingi á sínum tíma og við hvaða aðstæður tekin var sú ákvörðun að ákæra. Tillagan var um að ákæra fjóra fyrrverandi ráðherra en einn var tekinn út, varð eftir og var ákveðið að ákæra hann.

Það vantaði margar upplýsingar sem hafa komið fram eftir að málið var afgreitt á sínum tíma. Eftir að málið hefur núna verið í vinnslu hefur landsdómur vísað frá meginatriðum kæru málsins, mjög veigamiklum atriðum. Það breytir öllum forsendum fyrir þessu máli. Fyrir einhverja er það breyting á forsendum fyrir atkvæðum þeirra á sínum tíma að aðeins einn skyldi tekinn út þegar tillagan var um fjóra.

Síðan þá hefur Hæstiréttur staðfest neyðarlögin. Síðan þá hafa komið fram upplýsingar í fjölmiðlum um að bankarnir hafi starfað mjög óheiðarlega, þannig hafi KB-banki falsað upplýsingar eða lagt fram rangar upplýsingar innan stjórnar fyrirtækisins, Landsbankinn hafi falsað eða ekki gefið Fjármálaeftirlitinu réttar upplýsingar. Ég held að með þessar staðreyndir á borðinu sé mjög eðlilegt að þingið taki þetta mál núna til endurumfjöllunar og helst afgreiðslu fyrir jól. Allar forsendur liggja fyrir, þingmenn hafa allar upplýsingar, afbrigði eru afgreidd hér á færibandi þannig að það er ekkert nýtt að við þurfum að gera það í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. (Forseti hringir.) Ég skora á þingið að sýna þann sóma að taka þetta mál nú til umræðu, taka það á dagskrá og helst að ljúka því fyrir jól.