140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að gera að umtalsefni þau vinnubrögð sem ég hef orðið vitni að, bæði í þingsal og sem aðili að fundum þingflokksformanna, síðustu daga þingsins. Tekist er á af mikilli hörku um mál og farið í málþóf um bandorm og fjársýsluskatt til að tefja mál og skapa sér stöðu í öðrum málum. Þetta er hefðbundin skák sem á sér stað. Það er oft fyllilega réttmætt fyrir minni hluta á þingi að tefja mál og þæfa vegna mála sem eru þjóðþrifamál og skipta gríðarlega miklu. Það var réttlætanlegt í Icesave-deilunni á sínum tíma, þegar vatnalögin voru rædd og hefur verið réttlætanlegt í stórum málum og eðlilegt að það sé gert. En það hefur verið dapurlegt að fylgjast með þessum vinnubrögðum og þeirri stöðu sem er uppi í þinginu núna frá því í gærkvöldi. Menn eru einfaldlega að búa sér til einhverja stöðu í valdabaráttu.

Það er lágkúrulegt og niðurlægjandi fyrir þingið að vinna svona og ég hvet þingið til að breyta þessu. Það þarf ný vinnubrögð, það þarf skipulagðan ræðutíma en jafnframt þarf að tryggja minni hluta þingsins möguleika til að hafa áhrif á mál sem þeim er illa við. Einhver ventill þarf að vera til staðar þannig að minni hlutinn geti óskað eftir að mál verði tekin af dagskrá eða sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það á ekki að hleypa upp þingstörfum með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

Á fundum þingflokksformanna hefur að mestu verið rætt um staðgöngumæðrun hingað til þar til í gærkvöldi að Sjálfstæðisflokkurinn kom inn með þetta nýja mál um fyrrverandi forsætisráðherra, sem að mínu viti er alger hneisa fyrir Alþingi Íslendinga. Við verðum að taka okkur á og vinna betur út frá því sem við eigum að gera sem löggjafarvald en minna eftir eigin pólitísku og persónulegu áhugamálum.