140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hafið málflutning í ákærumáli á hendur Geir H. Haarde hér í þingsal með þingsályktunartillögu sem lögð var fram í gær. Þeir segja að rökstuddar ástæður séu fyrir því að taka þetta mál upp og hætta við ákæruna, leggja dóminn niður. Hvaðan koma þær rökstuddu ástæður? Hver biður um að dómsmálum verði hætt? Er það saksóknari? Hefur saksóknari sent erindi til þingsins, virðulegi forseti, og sagt að við værum með ónýtt mál í höndunum, að best væri að hætta? Mér er ókunnugt um það. Er það landsdómur? Hefur landsdómur komist að þeirri niðurstöðu að best sé að hætta þessu og tilgangslaust sé að halda áfram? Mér er ókunnugt um það. Landsdómur hafnaði hins vegar kröfu hins ákærða um að vísa málinu frá, líklega á allt öðrum forsendum en þeim að dómurinn teldi að málið væri ónýtt. Hvaðan er málið þá komið? Hver ber þetta mál hingað inn? Það kemur úr myrkustu iðrum Sjálfstæðisflokksins, virðulegi forseti. Þaðan er verið að bera þetta mál hingað inn til að forða fyrrum forustumanni Sjálfstæðisflokksins, sem hugsanlega ber einhverja ábyrgð á því sem hér gerðist haustið 2008, undan réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Þaðan kemur þetta mál inn á þingið.

Talað er um að finna málinu annan farveg. Það er í farvegi, ágætisfarvegi. Talað er um að óvissa sé í málinu. Það er engin óvissa í málinu, málið er fyrir dómi, kveðinn verður upp dómur á endanum. Talað er um að núna sé einmitt tíminn til að hætta við. Hvers vegna skyldi það vera? Af hverju er tíminn núna? Það skyldi þó aldrei vera þannig, virðulegi forseti, að málið sé komið á þann stað fyrir landsdómi að það fari að verða Sjálfstæðisflokknum óþægilegt (Gripið fram í.) að nú verði farið að rifja upp fyrir opinberum dómi ... (Gripið fram í.) Málið er komið hingað inn á vegum Sjálfstæðisflokksins. Það er Sjálfstæðisflokkurinn og enginn annar sem biður um að málið verði dregið til baka (Forseti hringir.) og það er sennilega vegna þess að Sjálfstæðisflokknum þykir óþægilegt að farið verði að rifja upp ýmis mál opinberlega fyrir dómi og vill ekki að það sé gert. (Gripið fram í.)