140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um stórt mál. Hann óskar eftir því, á síðasta starfsdegi þingsins fyrir jól, að málið fari á dagskrá þingsins núna fyrir jól. Hv. þingmaður biður um að Alþingi grípi inn í ferli sem málið var sett í af Alþingi sjálfu samkvæmt lögum. Ég vona að þessi tillaga verði dregin til baka og Alþingi ekki sett í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu til þess hvort Alþingi eigi að gera tilraun til íhlutunar í mál sem það sjálft hefur komið í ferli og hefur kosið embætti saksóknara til að sinna.

Málið er samkvæmt lögum úr höndum Alþingis, enda segir í stjórnskipunarrétti að svo sé. Í bókinni Stjórnskipunarréttur eftir Gunnar Schram segir á bls. 179, með leyfi forseta:

„Þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun og kosið sækjanda, og þingnefnd fimm manna honum til aðstoðar […] er málið komið úr höndum þingsins. Hvorki hið sama þing né annað nýskipað getur eftir það afturkallað málssókn.“

Málið er úr höndum þingsins, virðulegi forseti, og því engin ástæða til að taka það á dagskrá. Ég ítreka þá von mína að hv. þingmaður dragi tillöguna til baka og þingið geri ekki tilraun til að hafa áhrif á lögformlegt ferli eða niðurstöðu þess.