140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fjallaði hér aðeins um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ég hef áhuga á að spyrja hv. þingmann aðeins út í samskipti ríkisstjórnar Geirs H. Haardes haustið 2008, þegar bankarnir hrundu, við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá sérstaklega hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ráðlagt íslenskum stjórnvöldum að tryggja innstæður að fullu en ekki aðeins um þessar rúmu 3 milljónir eins og innstæðutryggingarsjóðnum bar samkvæmt lögum. Þá voru ekki einungis tryggðar að fullu innstæður fyrir þá sem féllu undir lögin heldur voru þau víkkuð út með neyðarlögunum og náðu líka yfir lögaðila. Að mínu mati er þetta ein víðtækasta innstæðutrygging sem sett hefur verið á í kjölfar bankahruns og ég veit ekki til þess að nokkur þjóð hafi haft efni á slíkum lúxus. Ég efast reyndar um að við höfum haft efni á honum. Ég hef því, herra forseti, áhuga á að vita hvað sjóðurinn ráðlagði ríkisstjórn Geirs H. Haardes hér haustið 2008.

Síðan langar mig aðeins til að spyrja út í endurreisn bankakerfisins. Hún er hluti af efnahagsáætlun AGS sem hv. þingmaður samþykkti að yrði innleidd hér þegar hann samþykkti samninginn við AGS. Hv. þingmaður hefur verið mjög gagnrýninn á ýmislegt í endurreisn bankakerfisins, þar með talið eignarhald kröfuhafa gömlu bankanna á nýju bönkunum og því hvernig haldið hefur verið á málum (Forseti hringir.) Byrs. Ég mun bera fram spurningu mína í öðru andsvari.