140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt það sem ýmsir í stjórnarandstöðunni hafa gagnrýnt hæstv. fjármálaráðherra fyrir, að hafa veitt ríkisábyrgð þegar ekki var ríkisábyrgð. Hann skrifaði upp á að hann mundi veita ríkisábyrgð sem er að lágmarki 11,2 milljarðar og ekki færð í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þess vegna er ekki ríkisábyrgð á því. Hann er samt búinn að skrifa undir þetta, hann er búinn að ganga frá þessu og hann býr til ríkisábyrgð með undirskrift sinni og væntanlega með meiri hluta hjá Alþingi án þess að þetta sé fært í fjárlög eða fjáraukalög. Þetta er það sem við höfum gagnrýnt hvað mest og þetta getur farið upp í 30 milljarða fyrir utan að það eru margar fleiri skuldbindingar á sveimi.

Það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum og ég fékk hæstv. fjármálaráðherra til að lýsa því einu sinni yfir í ræðu úr þessum ræðustól.