140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[14:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög mikilvægar nýjar upplýsingar um það sem er að gerast hjá öðrum þjóðum sem standa frammi fyrir sömu ákvörðun og við, þ.e. hvort við eigum að auka stofnframlag okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég er sammála því að það liggi ekkert á að afgreiða þetta mál núna rétt fyrir jól og tek undir hvatningu hv. þingmanns um að málinu verði frestað og að það fari aftur inn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til frekari umfjöllunar. (Gripið fram í.)

Hvað varðar þá fullyrðingu hv. þingmanns að hér sé um að ræða bakkabræðrahagfræði er ég ekki sammála. Hann vísar til þess að aðildarlöndin leggja inn á innstæðureikninga, með öðrum orðum lána Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigið fé og síðan geta þau dregið á þessa innstæðu. Vextirnir á innstæðureikningnum eru ekki nema 0,14% en lánin sem aðildarríkin og þar með Ísland geta fengið munu bera háa vexti, rúmlega 5%. Ástæðan fyrir þessum mikla vaxtamun er sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þarf að fjármagna starfsemi sína og líka töpuð lán. Oft og tíðum lánar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn löndum í erfiðleikum og neyðir þau til að innleiða efnahagsstefnu sem gerir vandamálið verra eða kreppuna dýpri. Ég get fallist á að þessi vaxtamunur er allt of mikill og ég vil vita hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um það.