140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[14:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, auðvitað er ég sammála þingmanninum um að þetta er of mikill vaxtamunur. Í eðlilegri bankastarfsemi væri þessi vaxtamunur notaður til að reka banka og standa undir hagnaði, en það er ekki hagnaðarmarkmið sem þeir hafa að leiðarljósi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Aftur á móti hefur það sýnt sig að ef töpuð útlán eru tekin inn í rekstrarkostnað Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er það mun meira en vaxtamunurinn stendur undir. Þar af leiðandi er sífellt meiri krafa um að fá hærra og hærra stofnfjárframlag inn í sjóðinn, sérstaklega náttúrlega í aðstæðum eins og ríkja núna þar sem er mikill lausafjárskortur í heiminum. Bankakerfið varð fyrst fyrir lausafjárskorti og það var leyst með því að ríkin lánuðu inn í bankakerfið þangað til þau voru búin að lána svo mikið að skuldirnar voru orðnar svo miklar að þau lentu í lausafjárskorti og þá fóru bankarnir að lána ríkinu. Nú er svo komið að báðir þessir aðilar eru stopp í þessum málum vegna þess að þeir hafa ekki aðgang að lausafé og þá kemur til kasta Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að setja inn lausafé, og Evrópska seðlabankans og annarra seðlabanka. Þess er ekki langt að bíða að þeir verði stopp líka.

Þess vegna er sú mikla hætta sem við stöndum frammi fyrir núna með fjármálakerfi heimsins. Það er búið að nota næstum því öll skotfærin og það er hið alvarlega í stöðunni núna.