140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[15:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um að hækka kvótann hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þ.e. þær skuldbindingar sem við stöndum á bak við þar. Ég hefði svo sem frekar viljað ræða hér um hækkun á öðrum kvótum en þessum. Ég verð þó að segja fyrir mitt leyti að ég skil ekki hvers vegna þetta mál er í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en ekki hv. fjárlaganefnd. Það er mér algjörlega hulin ráðgáta og ég tel það mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að nefndin sem er að fara yfir breytingar á þingsköpum fari sérstaklega yfir þetta mál því að það fjallar um fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs Íslands. Það er mjög óeðlilegt að þetta mál skuli vera í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en ekki hv. fjárlaganefnd. Það finnst mér mjög sérkennilegt og í raun og veru staðfesta þá nauðsyn og þörf að menn ræði þær breytingar sem voru gerðar á þingsköpunum. Við erum ekki bara með þetta mál sem að mínu mati er mjög sérkennilegt heldur höfum við þar fyrir utan farið yfir það í umræðunni um fjárlögin að tekjuhlið fjárlaganna virðist munaðarlaus. Ég held að allir séu sammála um að það gangi ekki óbreytt en samt er því ekki breytt. (Gripið fram í.) Það er mjög mikilvægt að farið verði í að skoða þessi þingsköp þannig að við stoppum að mínu mati þær hættur sem hér gætu verið á ferð.

Þetta fjallar ekki um pólitík, heldur eðlilega skynsemi. Einhver ákveðin nefnd á að hafa yfirumsjón með fjárskuldbindingum ríkissjóðs og síðan er hluti af þeim hér og þar í öðrum nefndum. Þetta verklag gengur ekki upp. Ég hélt að við hefðum lært eitthvað af þeim hamförum sem gengu yfir. Þó að það séu ekki nema þrjú ár síðan það var virðumst við litlu hafa breytt, a.m.k. í störfunum. Það eru haldnar innblásnar miklar ræður um að gera hitt og þetta, það er nóg talað en ekkert gert. Ég skil bara ekki hvernig á að halda utan um þetta. Ég hef velt dálítið fyrir mér hvernig seta okkar í hv. fjárlaganefnd geti verið með þessum hætti, hvert hlutverk okkar er því að þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Skoðum aðeins þetta mál um að auka kvótann eins og ég sagði í upphafi. Tvennt kemur fram í frumvarpinu sem er talið jákvætt. Ríkið á að hafa af því hag. Að öðru leyti hækka þau lán sem við getum fengið eða lánaflokkar sjóðsins sem ráðast af viðmiðuninni vegna hækkunar á kvótanum. Hitt jákvæða er sagt að atkvæðamagn einstakra ríkja í stjórn sjóðsins ráðist af kvóta þeirra, þ.e. eftir því hvað ríkin hafa mikinn kvóta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eða stofnfjárframlög eins og við getum kallað það. Í þessu tilfelli eykst það hjá okkur úr 0,055% í 0,067% þannig að þetta er gríðarlega mikil breyting á vægi — eða hitt þó heldur. Við erum að tala um 37,2 milljarða og það er talið okkur til tekna að við höfum þá meiri áhrif.

Mér finnst nokkrum spurningum ósvarað. Ég hef ekki fengið þau svör í þessari umræðu og þau koma ekki fram í nefndaráliti meiri hlutans. Það hefur reyndar komið fram í umræðunni hvernig þetta er meðhöndlað. 9,3 milljarðar eru færðir inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það hefur ekki áhrif á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Það sem gerist við þessa færslu á 9,3 milljörðum, þó að það hafi ekki áhrif af því að við höfum aðgang að þeim aftur, er að ákveðinn vaxtamunur myndast. Hann felst í því að tökum lán á 5,5% vöxtum en setjum það inn upp á 0,14 eða 0,15% án þess að breyta gjaldeyrisvaraforðanum. Þetta þýða 500 milljónir á ári, reiknað bara í huganum meðan ég segi þetta, og ég velti fyrir mér hvar eigi að færa þessi vaxtaútgjöld. Það eru ekkert annað en útgjöld ef maður tekur lán og lánar það öðrum aðila þótt maður hafi síðan aðgang að því. Þetta eru 500 milljónir og ég átta mig ekki á því hvernig á að færa þessa hluti, hvort á að færa þá hjá Seðlabankanum eða ríkissjóði eða hvernig á eiginlega að gera þetta. Það kemur ekki fram í þessu nefndaráliti og það er sagt að meira að segja hafi það komið fram í umræðu að í raun og veru sé gjaldeyrisvaraforðinn negatífur, þ.e. að við skuldum meira í erlendum gjaldeyri en við höfum í gjaldeyrisvaraforða að láni. Við skuldum umfram það sem er í sjóðnum, jafnvel nokkra tugi milljarða eins og komið hefur fram. Þá gefur augaleið að þessi vaxtamunur þarf að færast einhvers staðar en í þeim lögum sem vitnað er til um Seðlabankann fer hann með umboð fyrir íslenska ríkið hvað viðkemur samskiptum og umsýslu gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrsta spurningin sem maður hlýtur að þurfa að svara er hvar þessi vaxtagjöld færist. Eins og við munum í umræðunni um fjárlögin stóð ekki á því að færa það til tekna í ríkissjóð þó að bara væri verið að breyta útgáfu ríkisskuldabréfa úr verðtryggðum yfir í óverðtryggð. Það sem gerist er að þá fer hluti af vöxtunum af höfuðstól lánsins. — Stjórnarmeirihlutinn sá ástæðu til að lækka vaxtaútgjöld ríkisins um 591 milljón þótt það hefði ekki áhrif á skuldbindingarnar.

Hér kemur fram að 3/4 hlutar þessarar aukningar upp á 37,2 milljarða eru í raun inneign í Seðlabankanum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á. Hann á sem sagt innstæðu sem kemur fram. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun eignast innstæðu í Seðlabankanum fyrir hluta framlagsins, þ.e. þessa 3/4. Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á innstæðu í Seðlabankanum fyrir 3/4 hluta framlagsins hlýtur maður að spyrja hvort Seðlabankinn greiði þá vexti af innstæðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það hlýtur að vera næsta spurning sem kemur upp í hugann. Hvernig er þetta gert? Ég átta mig ekki á því. Það kemur hvorki fram í frumvarpinu né nefndarálitinu hvernig þetta er meðhöndlað. Þarna gæti verið um mjög stórar upphæðir að ræða og ef það væru bara innlánsvextir af þessum peningum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Seðlabankanum, sem ég veit ekki um, gæti það verið einhvers staðar í kringum 1,5 milljarða. Við erum að fjalla hér um mál sem er um það bil 2 milljarðar í vaxtagjöldum sem er ekki hægt að átta sig á hvernig á að færa og hvar muni lenda. Mér sýnist þó alveg skýrt að þessar 500 milljónir muni lenda á ríkissjóði eða Seðlabankanum, þá á ríkissjóði beint eða óbeint. Hin spurningin sem er ósvarað er hvernig farið er með innstæðuna sem myndast inni í Seðlabankanum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er með. Það er ekkert fjallað um það hér. Ég átta mig ekki á því. Það er ekki hægt að lesa það út úr frumvarpinu.

Síðan er búið að ræða töluvert um það ástand sem er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og ástand í einstaka ríkjum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að gera það sem hann getur til að hjálpa þeim stjórnmálamönnum sem stýra viðkomandi löndum að bregðast við ríkjandi ástandi, annars vegar með því að láta þá hafa skammtímafjármagn og veita þeim efnahagslega ráðgjöf til að koma þeim á lappirnar aftur.

Það eru mörg dæmi sem við sjáum í fréttum þessa dagana. Í gríska þinginu þarf til dæmis að samþykkja fjárlög ríkisins með herinn fyrir utan til að tryggja vinnufrið þar inni. Þá veltir maður fyrir sér hvað í raun og veru — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti biður hv. þingmenn í hliðarsal að gefa þingmanni hljóð til að flytja mál sitt úr ræðustól.)

Virðulegi forseti. Ég þakka þér fyrir það. Það er varla hægt að halda hér ræðu þegar margir fundir eru í gangi í einu. Það kannski lýsir því líka að þegar við ræðum hér um skuldbindingar upp á 40 milljarða sem gætu hugsanlega lent á íslenska ríkinu situr ekki einn einasti hv. þingmaður í salnum og tekur þátt í umræðunni með því að fara í andsvör við þá sem spyrja hér spurninga eins og ég er að gera. Það er mjög dapurlegt og sýnir kannski að þegar við fjöllum um fjármál ríkisins er það yfirleitt gert fyrir tómum sal. Einstaka hv. þingmenn taka þátt í þeirri umræðu sem segir okkur, eða að minnsta kosti er það mín skoðun, að of lítil virðing er borin fyrir þeirri umræðu sem oft fer hér fram um það sem snýr að fjárlögum ríkisins og fjárskuldbindingum ríkissjóðs. Það er eins og að fólk átti sig ekki á því verkefni sem fram undan er þó að allir séu sammála um mikilvægi þess að ná niður halla ríkissjóðs. Þegar kemur að því að fjalla um þau mál sem snerta fólk mest eru mjög margir hv. þingmenn sem taka engan þátt í þeirri umræðu.

Áður en þessi truflun varð var ég að tala um að til dæmis á gríska þinginu varð að hafa herinn fyrir utan til að gæta þingsins meðan fjárlögin voru samþykkt. Þá veltir maður líka fyrir sér hvernig staðan er. Menn tala um að þar sé ekkert annað fram undan en þjóðargjaldþrot. Í raun og veru mun þingið ráða við stöðuna því að ef kosið verður áður en búið er að endurgreiða framlög Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lán til hans gagnvart þessum ríkjum verður kannski búið að skipta um ríkisstjórn og hún nær kannski fylgi út á það að ætla ekki að fara í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að ná niður halla á viðkomandi ríkissjóði. Maður veltir fyrir sér hvort hægt sé að ráða við vandann.

Hér kom líka fram í ræðu áðan að þýski seðlabankinn og eins þýska fjármálaráðuneytið hefðu miklar áhyggjur af stöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins miðað við þær lánveitingar sem búið er að veita og hvernig þær muni endurheimtast. Ekki hef ég þekkingu á því en það hlýtur að þurfa að spyrja þeirrar spurningar þegar meira er dregið inn í stofnfjárframlagið. Jú, það er búið að lána mjög mikið af peningum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hefur hugsanlega tapast og þarf að afskrifa. Er kannski komið svona mikið í pípurnar að það þurfi að auka stofnfjárframlagið út af því? Það er mikilvægt að fara vandlega og vel yfir þá stöðu. Hæstv. fjármálaráðherra mun væntanlega fara með valdið og það er reyndar mjög sérkennilegt að hæstv fjármálaráðherra, sem hafði uppi stór orð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn haustið 2008, skuli núna sækja um aukningu heimilda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það þyrfti að rifja upp mörg þau orð sem voru látin falla í þeirri umræðu.

Aðalatriði er þó að með samþykkt þessa frumvarps er verið að auka fjárskuldbindingar íslenska ríkisins um 37,2 milljarða. Það liggur alveg fyrir. Mér finnst að það þurfi að fara fram mun vandaðri vinna. Bæði í þessu nefndaráliti og eins í frumvarpinu er mörgum spurningum ósvarað sem ég hef reifað. Ég er ekki að sakast við hv. efnahags- og viðskiptanefnd í því sambandi miðað við þann tíma sem á að keyra málið í gegn, en þetta virðist eitt af þeim málum sem var reiknað með að yrðu túlkuð sem tæknilegar breytingar. Heitið á frumvarpinu er líka umhugsunarefni, heimild til að samþykkja hækkun á kvóta en ekki hækkun á fjárskuldbindingum íslenska ríkisins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég held að við verðum að ræða þetta á réttum forsendum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að mér er algjörlega óskiljanlegt af hverju þetta mál er í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki fjárlaganefnd því að fjárskuldbindingar ríkisins og framkvæmd fjárlaga eiga klárlega að vera þar. Ákveðnir hlutir virðast hafa átt að vera fyrir utan og þá gefur augaleið að hv. fjárlaganefnd mun ekki hafa þá yfirsýn yfir fjárskuldbindingar íslenska ríkisins sem nauðsynleg er.

Við erum að tala um að ná niður halla ríkissjóðs sem ég held að enginn deili um að sé mjög mikilvægt. Það eru blóðpeningar að borga vexti, en við erum eigi að síður að fara að henda að minnsta kosti 500 milljónum í vexti í þessum vaxtamun. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum næsta árs hvar eigi að færa vaxtaútgjöldin. Ef það myndast innstæða, sem ég veit ekki af því að það er innstæða sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á fyrir 3/4 hlutum í íslenskum krónum í Seðlabankanum, er spurningin: Er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með innlánsvexti í Seðlabankanum á þeirri innstæðu sinni? Það er hlutur sem ég átta mig ekki á og veit ekki, en klárlega á hann innstæðuna. Hvort hún er vaxtalaus eða ekki veit ég ekki en þá erum við hugsanlega að tala þarna um einhvers staðar í kringum 2 milljarða í vaxtaútgjöld fyrir ríkissjóð sem mér finnst ekki fá nægilega umræðu í þinginu við afgreiðslu þessa máls. Síðan geta menn tekist á um hvort hægt sé að rétta af einstakar sjúkrastofnanir með örfáum milljónum til að hægt sé að reka þær að því lágmarki sem nauðsynlegt er. Menn hafa haft stór orð um það og rifist um það dögum og vikum saman og notað mikla orku og mikinn tíma. Þá geta menn setið hér fyrir fullum sal í marga daga og margar vikur. Sérstaklega er það þannig með suma hv. þingmenn sem taka nánast aldrei þátt í neinum umfjöllunum um fjármál ríkisins, sem eru grunnurinn að því að við getum búið til það þjóðfélag sem við viljum, að þeir hafa aldrei nokkurn tímann tekið til máls í þeirri umræðu. Það væri athyglisvert að fletta þeim upp. Ef þeir sjá hins vegar einhver tækifæri á því að koma hér með einhvers konar yfirlýsingar eða skot á aðra hv. þingmenn eða hæstv. ráðherra sem gætu hugsanlega komið þeim á forsíðufrétt einhvers konar fjölmiðils stendur ekki á þeim að rjúka hér upp til handa og fóta og reyna að láta að bera á sér.

Ég ætla að hafa það mín lokaorð að ef við förum ekki að fjalla af meiri ábyrgð um fjármál ríkisins en verið hefur hingað til munum við aldrei ná tökum á þeim.