140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu fyrr í dag lagði ég til að þetta mál yrði tekið af dagskrá, það yrði sett í efnahags- og viðskiptanefnd sem tæki sér góðan tíma í að fara yfir málið, hvernig það er statt hjá hinum 187 aðildarríkjunum að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvaða áhættur felast í þessu o.s.frv., kynna sér nákvæmlega hvað við erum raunverulega að véla um. Það liggur nefnilega ekkert á, það er ekki eins og við séum seinasta landið til að afgreiða málið.

Hvað finnst þingmanninum um þá hugmynd mína að þetta verði tekið af dagskrá núna, sett inn í efnahags- og viðskiptanefnd og hún noti janúarmánuð til að fara yfir málið? Við getum þá annaðhvort hafnað því eða samþykkt í lok janúarmánaðar og samt verið með þeim fyrstu, ef ekki fyrsta landið, til að samþykkja stofnfjáraukninguna. Mundi þingmaðurinn segja að þetta væri varfærnisleg afstaða eða eru kannski bara hugarórar hjá mér að þetta sé þessi áhætta? Ættum við að afgreiða þessa 37,2 milljarða í kvöld og senda þá til Washington á morgun og þá væri hægt að nota þá fyrir jólin?