140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í veftímariti Spiegel segir að Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Japanar séu ekkert að fara að greiða þetta. Bretar ætla að greiða einn þriðja. Tékkar ætla ekkert að greiða nema allar Evrópuþjóðirnar greiði. Þýski seðlabankinn hefur miklar efasemdir og vill fá stuðning frá þýska þinginu til að ganga í þessa aukningu. Allt stafar þetta af vandræðunum í Evrópusambandinu og þeim vandræðum að The European Financial Stability Facility öryggissjóðurinn eða EFSF eins og hann er skammstafaður á enskri tungu, sá gríðarstóri sjóður mun ekki geta bjargað Spáni eða Ítalíu. Það er fullkomlega útilokað að sérfræðingur í þessu máli hefði ekki vitað af þessu. Það er óskiljanlegt að við séum að fjalla um mál af þessari stærðargráðu, þetta snýst um tugi milljarða, og að við kynningu þess hafi þetta ekki komið fram. Ég vek athygli á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fram minnisblað sitt fyrir aðildarríkin í mars á þessu ári. Við fáum þetta á elleftu stundu og okkur er sagt að þetta sé svo sjálfsagt mál að engra spurninga sé spurt um það í nokkru einasta landi.

Við höfum auðvitað aðgang að ýmsu en það er ekki eðlilegt og má ekki líðast, í stórum málum sem smáum, að hv. þingmenn sem eiga að taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar fái ekki réttar upplýsingar. Ég fer fram á að þingflokksformenn og forsætisnefnd fari yfir þetta mál.