140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða og hv. þingmaður spyr hvort ég sé sammála honum um hættuna sem stafar af því hvernig málum er háttað í Seðlabankanum. Dregið er á lánin og féð fer út úr gjaldeyrisvarasjóðnum o.s.frv., ég er sammála hv. þingmanni um það.

Síðara atriðið sem hv. þingmaður nefndi er einnig athyglisvert, þ.e. hvort ekki þurfi að gera grein fyrir þessu í fjárlögum þar sem þetta er skuldbinding fyrir ríkissjóð þar sem hann ber ábyrgð á Seðlabankanum eins og við höfum svo sannarlega fundið fyrir frá því haustið 2008. Þá tek ég undir það með hv. þingmanni að skoðað verði mjög nákvæmlega hvort í raun sé hægt að gera það með þessum hætti. Hv. þingmaður hefur miklu lengri þingreynslu en ég en mér sýnist að lausnin yrði þá fljótt fundin, þ.e. að taka á þessu máli í fjáraukalögum eða koma þeim þangað með einhverjum hætti því að fjáraukalögin virðast vera notuð sem einhvers konar sturta (VigH: Prentvél.) — já, eða prentvél þegar á þarf að halda. Hv. þingmaður leiðréttir mig kannski í seinna andsvari ef það er rangt að brugðist verði við þessu með þeim hætti. Það er hins vegar algerlega forkastanlegt að búið sé að ganga frá fjárlögum án þess að hafa þessar skuldbindingar þar inni. Það hefur legið fyrir síðan í mars að þetta mál kæmi inn á borð okkar á Alþingi, því var dreift síðla í nóvember, tekið á dagskrá og mælt fyrir því 8. desember. Ef ég man rétt vorum við búin að klára fjárlögin þá. (VigH: Hneyksli.) Svo er málið á dagskrá í dag, 16. desember, þannig að ég held að það sé full ástæða til að halda þessu mjög á lofti og spyrja þeirrar spurningar sem þarf að spyrja: Af hverju er þetta ekki í fjárlögunum?