140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú berast fréttir af því úr öllum heiminum og forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, sagði síðast í gær að staða flestra ríkja í heiminum ef ekki allra væri mjög slæm út af skuldavandamálum. Ég held að við þurfum að fara mjög varlega og við þurfum að kynna okkur þá umræðu sem á sér stað í öðrum þingum því að 187 ríki samþykkja þetta mál núna eða samþykkja ekki. Ég held að hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég á ekki sæti í frekar en hv. þingmaður, ætti að kalla til sín sérfræðinga á þessu sviði, taka málið inn í rólegheitum og vinna það efnislega því að þarna eru miklir hagsmunir og við eigum ekki að blanda neinni pólitík eða flokkspólitík inn í það.

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd ætti að fjalla um það í janúar og fá til sín sérfræðinga og fá upplýsingar um umræðuna í þýska þinginu, ameríska þinginu o.s.frv. þar sem menn hafa meira varann á sér en hér því að mér sýnist að vinnslan í nefndinni hafi verið frekar mögur og flaustursleg. Þetta eru það stórar upphæðir að við getum ekki tekið þær á okkur rétt sisvona.

Eins og ég gat um í fyrra andsvari mínu er þetta skuldbinding, þetta er áhætta fyrir skattgreiðendur Íslands.