140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft er sagt í þessum ræðustól að Íslendingar séu ekki einir í heiminum, þeir megi ekki einangra sig og eigi jafnvel að ganga í eitthvert ríkjasamband til að einangrast ekki. Fyrir hrunið, á allsnægtarárunum, skelltu menn skollaeyrum við varnaðarorðum. Ríkisstjórn Íslands í dag, velferðar vinstri stjórnin svokallaða skellir skollaeyrum við öllum varnaðarorðum sem sögð eru varðandi Evrópusambandið, myntina og slíkt.

Það virðist einnig vera með þetta mál eins og mörg önnur að það á ekki að fylgjast með þróuninni í öðrum löndum, hvað önnur ríki eru að gera sem við eigum jafnvel samskipti og viðskipti við, sem við höfum hingað til reitt okkur á að einhverju leyti. Það virðist ekki eiga að taka mið af því hvernig þær þjóðir ætla að taka á þessu máli.

Það er vitanlega slæmt ef menn hafa ekkert lært. Við þingmenn erum búnir að benda á það mjög lengi að svo virðist vera að þessi stjórnvöld hafi ekkert lært. Hin hreina vinstri stjórn virðist ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við hljótum að þurfa að skoða þetta varðandi fjárlögin betur, hvort þessir hlutir eigi ekki heima þar, það er þá eitthvað sem við getum lært af. Við eigum ekki að samþykkja fjárlög sem vantar einhverja tugi milljarða inn í en við verðum jafnframt að gera okkur grein fyrir því að það mundi væntanlega líta frekar illa út ef þessi stabbi væri þar inni. Það er bara einn hluti af því. En ég er sammála hv. þingmanni, þetta er eitthvað sem taka þarf til endurskoðunar.