140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mikilvægt þótt ekki sé nema vegna þeirra fjárhæða sem um ræðir og eru umtalsverðar skuldbindingar af hálfu Íslands. Menn geta í sjálfu sér sett þær í samhengi við ýmsar tölur sem við ræddum mikið hér í Icesave-málinu á mismunandi tímum, mismunandi útfærslur á því samkomulagi sem síðan varð aldrei. Tölurnar sem um er að ræða eru óneitanlega mjög háar.

Það sem kannski skiptir máli fyrir okkur þegar við ræðum þetta er að gera okkur glögga grein fyrir því hvernig færi ef þessir peningar töpuðust, ef Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn þyrfti á því að halda að nota þá og næði þeim ekki til baka, fengi þá ekki greidda til baka.

Þá er fyrst til að taka að það er auðvitað áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga og reyndar fyrir alla hver þróun mála er úti í Evrópu. Þar standa menn frammi fyrir þeim vanda að evran, hin sameiginlega mynt 17 ríkja ESB, hefur verið undir mikilli pressu undanfarin missiri og vandinn hefur verið vaxandi. Hann á sér rætur í því að sú hugmynd að vera með eina mynt í samstarfi ólíkra þjóða án þess að nægjanlega sterkar sameiginlegar stofnanir standi að baki henni er í besta falli óreynd. Menn hafa litla reynslusögu af slíku, í það minnsta þekki ég ekki dæmi um myntbandalög ólíkra þjóða sem hafa ekki sameiginlega pólitíska yfirstjórn. Þá á ég við yfirstjórn á ríkisfjármálum, skuldamálum og öðru slíku sem er nauðsynlegt til að hægt sé að tala um að þær stofnanir séu í lagi sem þurfa að vera til staðar fyrir eina sameiginlega mynt.

Um þetta má nefna fjölmörg dæmi um hvernig samfélög eða ríkjaeiningar sem hafa áður verið í sameiginlegu sambandi, eins og austurríska og ungverska keisaradæmið, geta síðan ekki þegar brotnar upp úr því haldið einni mynt. Annað dæmi er reyndar mjög áhugavert, þ.e. Ítalía. Þar er um að ræða mjög ólíka efnahagslega stöðu norðurhlutans annars vegar og suðurhlutans hins vegar en vegna þess að um er að ræða eina pólitíska heild gekk það upp að vera með sömu myntina fyrir þau svæði. Má ljóst vera að ef Norður-Ítalía hefði verið sjálfstætt svæði eða land og Suður-Ítalía annað hefði aldrei gengið upp að vera með sameiginlega mynt. Þetta er vandi evrunnar í hnotskurn eins og við sjáum hvað varðar Grikkland, Spán, Ítalíu, Írland og fleiri lönd.

Þótt hugmyndin að hinni sameiginlegu mynt sé um margt ágæt var einfaldlega ekki gripið til nægjanlegra aðgerða til að tryggja að sú mynt gæti gengið upp. Það má velta því fyrir sér hvers vegna það var ekki gert. Hvers vegna var ekki gripið til nægjanlegra aðgerða? Jú, það er vegna þess að þær aðgerðir hefðu byggt á því að ríkin í evrusamstarfinu gæfu frá sér stóran hlut af forræði sínu, af fullveldi sínu, til að hægt væri í raun og veru að tala um stjórnmálalega heild sem bæri að hafa eina mynt.

Við sjáum aftur á móti stöðuna í Bandaríkjunum þar sem er hægt að benda á ólík fylki og ólíka efnahagsstöðu þeirra, en samt sem áður gengur upp að hafa eina sameiginlega mynt fyrir Bandaríkin. Það hvílir á því að um er að ræða eina ríkisheild og eina ríkisskuld og þar með sameiginlega fjármálastefnu. Þetta er lykilatriði og gerir það að verkum að þrátt fyrir mikinn hreyfanleika á bandarísku vinnuafli gengur mjög vel að hafa dollarann sem mynt fyrir þetta mikla og fjölmenna svæði.

Þetta hefur ekki gerst í Evrópu. Menn vita hvers vegna. Til að kalla slíkt fram þurfa stjórnmálamenn að fara fyrir kjósendurna og stilla upp þeim valkostum sem eru í raun og veru til staðar og fá þá til að samþykkja að gefa frá sér enn meira af fullveldi sínu.

Hugmyndin að baki evrunni er aftur á móti hugsjónir þeirra manna sem þekktu hörmungar styrjaldanna, þeirrar fyrri og seinni, og höfðu vissu fyrir því að besta leiðin til að koma í veg fyrir stríð væri að hnýta saman hagsmuni bæði Þýskalands og Frakklands alveg sérstaklega, en annarra Evrópuríkja um leið, þannig að ekki kæmi aftur til slíkra átaka. Besta leiðin til þess er sú að nægjanlegur samruni verði til að ein mynt gangi upp. En fyrst var farið af stað með myntina áður en komið var að samrunanum.

Ég hef áhyggjur af því og veit að ég er ekkert einn um það að það mun verða mjög langsótt og torsótt að fá almenning í Evrópu til að fallast á þær niðurstöður sem við sáum m.a. birtast nú á dögunum þegar 26 ríki ESB, öll að Bretum undanskildum, ákváðu að gera með sér samkomulag, sem er utan ESB-regluverksins, til að dýpka samstarfið þannig að evran gæti gengið upp. Er rétt að hafa það í huga að þau ríki sem ekki hafa tekið upp evru, og hafa ekki sömu heimildir og Bretar til að standa utan evru, eiga og þeim ber að stefna að því að taka upp evru um leið og þeim er það mögulegt. Um það fer ekki fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla sem máli skiptir heldur er það bara það sem menn hafa gengist undir með því að ganga í ESB, að taka upp evruna, hina sameiginlegu mynt.

Hvers vegna, frú forseti, geri ég þetta að umræðuefni? Vegna þess að þegar við veltum fyrir okkur þeim upphæðum sem hér er verið að tala um að leggja beri fram verðum við að horfa til þeirra vandamála sem líkur eru á að alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn þurfi að fást við. Reyndar sagði forsætisráðherra Breta, David Cameron, það skýrt og skilmerkilega í breska þinginu að það væri ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hjálpa einstökum myntum, að styðja við bakið á einstökum gjaldmiðlum. Hlutverk sjóðsins væri að styðja við einstök ríki og það skipti máli að menn gerðu þar greinarmun á.

Vandinn er sá að þau lönd sem eru nú í vandræðum, eins og Ítalía og Spánn, eru bara svo stór og vandi þeirra svo mikill að erfitt er að sjá það fyrir sér að nokkur aðili geti í raun og veru bjargað þeim ef fjármögnunarkostnaður þeirra rýkur svo upp úr öllu valdi að þau fái ekki staðið undir skuldbindingum sínum og geti ekki aflað sér fjár á eðlilegum vöxtum.

Því miður, frú forseti, er þetta raunhæfur möguleiki. Þetta vandamál getur hvolfst yfir okkur og má ljóst vera að fyrir okkur Íslendinga yrðu það skelfilegar fréttir. Um leið er rétt að hafa eitt í huga sem snýr að evrunni, það er þegar menn segja að það yrði mikið vandamál, sem ég tek undir, ef evran hryndi vegna þess að þá mundu gjaldmiðlar sem yrðu síðan teknir upp hrynja í kjölfarið og gríðarleg vandamál mundu fylgja í kjölfarið. Um leið og menn hafa sagt þetta viðurkenna þeir að hætta sé á að evran endurspegli ekki nægjanlega vel framleiðsluþættina, þ.e. framleiðslugetu eða notkun framleiðsluþátta í þessum ríkjum, og því sé líklegt að gengi gjaldmiðla, verði þeir teknir aftur upp, hrynji til að þeir endurspegli betur þá stöðu. Í það minnsta er rétt að hafa þetta í huga þótt auðvitað kæmi fleira til sögunnar eins og áhrif þess að mikil óvissa myndaðist í kjölfar þess að svo stór og mikil mynt hyrfi af sjónarsviðinu og þjóðmyntirnar tækju aftur við. Óvissan mundi ein og sér valda falli myntanna eða gjaldmiðlanna.

Allt skiptir þetta okkur máli í þessari umfjöllun. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því hvernig þetta mál hefur komið til okkar. Að mínu mati, eftir að hafa hlustað á umræðu í dag og heyrt þær áhyggjur sem fram hafa komið og þrátt fyrir að málið eigi uppruna sinn fyrir nokkrum mánuðum hér í þinginu og menn hafi vitað af því, erum við núna að ræða þetta á síðustu metrunum og síðustu dögum þingsins fyrir áramót. Miðað við þær upphæðir sem um er að ræða, þær háu tölur sem Ísland verður þá búið að leggja fram með óafturkræfum hætti sem hlutafé til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá verða menn að hafa í huga og vera algjörlega með opin augu fyrir því að þessir fjármunir geta tapast. Það er ekkert endilega víst, frú forseti, að einhver óáran í Evrópu ylli slíku tapi, hún kynni að verða á fjarlægari stöðum, í Suður-Ameríku eða Asíu. Enginn getur spáð um það fyrir fram með vissu hvernig kínverska hagkerfið mun þróast. Margir hafa haft af því áhyggjur að staða mála þar kynni að verða til þess að verulegur afturkippur yrði á því svæði. Ef svo yrði kann vel að vera að aftur yrði þörf fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar. Í það minnsta er ekki hægt að útiloka það.

Ef Evrópa lenti í þeim ósköpum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þyrfti að grípa þar inn í stöðu stórra ríkja á borð við Ítalíu og Spán er að sjálfsögðu ljóst fyrir okkur Íslendingum að ofan á það að eiga á hættu að tapa slíkum fjármunum eins og hér um ræðir þá mundu viðskiptakjör okkar um leið versna til mikilla muna. Það mundi hafa mjög alvarleg áhrif á efnahagslíf okkar.

Það er ágætt að nota þetta tækifæri til að ræða annað úr því að við erum að ræða um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og starfsemi hans og þátttöku okkar í því starfi. Hið stóra vandamál sem Vesturlöndin hafa staðið frammi fyrir hvað varðar stjórn peningamála er það að við fórum í þetta nýja kerfi. Við fórum af gullfæti, einkum og sér í lagi vegna ákvörðunar Bandaríkjamanna, og yfir í kerfi sem byggði fyrst og síðast og algjörlega á pappírspeningum. Ekki er komin löng reynsla í árum talið, frú forseti, á það fyrirkomulag. Þegar menn horfa til þeirrar stöðu sem hefur myndast þá hlýtur að vakna spurning um reynslu okkar af því fyrirkomulagi að hafa pappírspeninga, sem eru án þess að það sé fótur þar undir, t.d. gullfótur, þar sem prentunarvald seðlabankanna er gríðarlegt, eftir að við höfum horft á þróunina undanfarin ár og hvort þetta fyrirkomulag gangi einfaldlega upp. Ég er ekki hingað kominn til að segja að ég hafi svar við þessu, enda væri það mikill oflátungsháttur að ætla sér að geta leyst þetta vandamál, ég tala nú ekki um í lítilli ræðu í þinginu.

Stóra vandann sem Vesturlönd lentu í tel ég vera afleiðingarnar af þessari peningamálastefnu. Afleiðingarnar af því að seðlabankarnir gátu prentað peninga án þess að nokkur fótur væri þar undir eru að koma í ljós og hafa sýnt sig í formi þess að gríðarleg lánabóla hefur gengið langt með að kollvarpa fjármálakerfi Vesturlanda. Á sama tíma, og það gerir þessi mál öllsömul miklu flóknari, er verið að keyra áfram hugmyndina um evru án þess að að baki hennar séu nægjanlega sterkar stofnanir sem geta tryggt það að hún standi af sér áföll eins og alvörugjaldmiðlar eiga að geta gert. Þessi samsetning hefur reynst okkur erfið, annars vegar staða evrunnar og hins vegar framkvæmd peningamálastefnunnar á Vesturlöndum, og birtist í þeirri ógnvænlegu stöðu sem við sjáum hvað varðar skuldir ríkjanna þar sem ríki eins og Grikkland gátu allt í einu tekið gríðarleg lán á ekkert ósvipuðum kjörum og Þýskaland og það sama á við um bóluna á Spáni o.s.frv. Það eru þessi risavöxnu vandamál sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur nú frammi fyrir.

Enn á ný, ef við ákveðum að taka þátt í þessari hlutafjáraukningu og ákveðum að setja svo mikla fjármuni til þessa verkefnis, er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir þeim vanda sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kann að standa frammi fyrir og hversu líklegt er að hann geti leyst hann og hvort hann geti leyst hann vegna þess að þannig mun fara fyrir peningum okkar, þeim fjármunum sem þarna verða lagðir inn.

Ég vil líka nefna varðandi stefnu seðlabankanna, af því að menn hafa staðið frammi fyrir þeim vanda að vera með pappírspeninga án þess að undir þeim sé fótur eins og gull, að sú þróun hefur orðið á stjórn peningamála að menn hafa tekið upp hið svokallaða verðbólgumarkmið. Verðbólgumarkmið, frú forseti, er í raun og veru þegar seðlabanki viðkomandi ríkis gefur út loforð um að 100 kr. í upphafi árs missi ekki gildi sitt nema upp að ákveðnu fyrir fram gefnu marki í lok ársins, t.d. að verðbólgan verði ekki meiri en 2,5% þannig að rýrnun peninganna verði ekki meiri en sem því nemur. Þetta loforð seðlabankanna, yfirlýsing þeirra, byggir síðan á því að seðlabankarnir njóti trausts atvinnulífs og almennings um að loforðið verði haldið en tæki seðlabankanna til að standa við loforðið er vaxtaprósentan, stýrivaxtastigið, sem þeir geta beitt til að reyna að tryggja að verðbólgan verði innan marka.

Við höfum búið við þetta fyrirkomulag frá upphafi 10. áratugarins. Lítil reynsla er komin á fyrirkomulagið. Reyndar má segja fyrir okkur Íslendinga, sem tókum upp þetta verðbólgumarkmið árið 2001, að reynsla okkar af því sé ekki góð að mínu mati. Verðbólgumarkmiðið og framkvæmd þess ýtti m.a. undir vaxtamunarviðskipti og ýtti undir að erlent fjármagn kom umfram það sem eðlilegt var inn í landið sem gerði það að verkum að fjármálastöðugleikinn varð minni. Ríkisfjármálunum var ekki stýrt af aga og útgjöld ríkisins fengu að vaxa allt of mikið sem vann gegn markmiðum peningastefnunnar og gerði það að verkum að Seðlabanki Íslands lenti í þeim hryllilega vanda að þegar upp var staðið voru möguleikar bankans til að fást við vandamálið sem upp var komið næstum því engir.

Áhyggjur mínar hvað varðar þetta frumvarp eru óvissuþættirnir sem snúa að stjórn peningamála í heiminum, reynslunni af verðbólgumarkmiðinu, reynslunni af því að vera með útgáfu á peningum án þess að nokkur fótur sé undir þeim og reynslunni af evrunni og því að ekki skuli vera nægjanlega sterkar pólitískar stofnanir að baki henni. (Gripið fram í: Rétt.) Ég held að allir þingmenn hljóti að hafa áhyggjur af hve miklir fjármunir þetta eru. Menn ættu að skoða þá fjármuni sem við erum að ræða í samhengi við umræðuna um Icesave-málið og hversu mikla umræðu þetta mál hefur hlotið hér í þinginu og athygli fjölmiðla og annarra.

Það hversu mikil óvissa er í alþjóðlegum efnahagsmálum og hversu mikla fjármuni við Íslendingar ætlum að setja til þessa verkefnis hefði verið ástæða til að vanda okkur, kalla til okkar færustu sérfræðinga og fara yfir þetta mál og meta hvaða áhættu við erum að taka, hvort okkur sé lífsins nauðsynlegt að taka hana, hvort aðrar þjóðir muni gera hið sama, hvort allar aðrar þjóðir hafi farið nákvæmlega þá leið o.s.frv. Ég óttast, frú forseti, að ekki gefist nægur tími fram að þinghléi til að leggja slíkt mat niður fyrir sér.