140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er með stökustu ólíkindum að jafnstórt og umdeilanlegt og óljóst mál og þetta skuli koma inn í þingið með þeim hætti sem við verðum vitni að hér og að til standi að afgreiða það svona einn, tveir og þrír á nokkrum klukkutímum. Hins vegar höfum við séð sambærilega hluti gerast allt of oft undanfarin ár í þinginu og við höfum séð sambærilega hluti gerast ekki hvað síst innan Evrópusambandsins í vandræðum þess þar sem menn hittast á hverjum neyðarfundinum eftir öðrum — ég held að stóru neyðarfundirnir séu núna orðnir 18 — taka einhverjar ákvarðanir um hluti, gefa út miklar yfirlýsingar um að búið sé að leysa málin og gefa alls konar loforð án þess að vera búnir að átta sig á því hvað í þeim felst og jafnvel ekki búnir að fá það samþykki sem þarf í heimalöndunum. Þegar farið er að skoða málin ýmist sjá menn að hlutirnir eru ekki framkvæmanlegir eða koma að litlu haldi.

Svo gerðist það á síðasta neyðarfundi, þeim 18., að forsætisráðherra Bretlands ákvað að taka ekki þátt í þessum leik og sagði: Hingað og ekki lengra, þessi mál þurfa að ræðast betur áður en ég gef samþykki fyrir þeim. Hann fékk bágt fyrir í stjórnarandstöðunni í heimalandi sínu, en almenningur í Bretlandi var himinlifandi yfir því að loksins hefði einhver sett hnefann í borðið og sagt: Eigum við ekki að skoða hvaða vitleysa er í gangi hér?

Er hv. þingmaður sammála mér um að við þurfum að fara að dæmi forsætisráðherra Bretlands í þessu máli og segja: Nei, hingað og ekki lengra, þetta mál verðum við að skoða betur áður en hægt er að samþykkja það?