140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get strax tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal varðandi það að mjög mikilvægt er að menn séu ekki meðvitundarlausir í þessu máli og það er sérstaklega mikilvægt að við fáum það á hreint hvað aðrar þjóðir ætla að gera, hvernig þær hafa staðið að þessum málum. Það er aðalatriðið. Síðan getum við tekið ákvarðanir sjálf út frá því.

Umræðan um gullfótinn er mjög áhugaverð. Þegar gullfóturinn var tekinn af, en þar hafði Nixon Bandaríkjaforseti mest áhrif, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, gátu Bandaríkjamenn prentað sig út úr skuldum sínum sem orðið höfðu til í Víetnam-stríðinu af því að bandarískur dollari var alþjóðleg mynt. Þar með gátu Bandaríkjamenn velt hluta af skuldum sínum yfir á aðra.

Vandinn með gullfótinn er aftur á móti sá að með því að hafa myntir á gullfæti er í raun og veru um að ræða eina sameiginlega mynt. Í aðdraganda kreppunnar miklu 1929 höfðu Bandaríkjamenn miklar áhyggjur af því að Bretarnir færu af gullfæti og hikuðu þeir því við að hækka vexti í Bandaríkjunum þegar þeir hefðu kannski átt að gera það til að stinga á bólu þar. Menn vissu að með því að hækka vexti í Bandaríkjunum mundi fjármagn, þ.e. gull, færast frá Bretlandi þangað þar sem þeir fengju raunverulega hærri vexti. Á sama tíma var mikil kreppa í Bretlandi og atvinnuleysi og menn treystu sér ekki að hækka vexti þar.

Í sjálfu sér mundi gullfótur ekki leysa þau vandamál sem við stöndum nú frammi fyrir, ég hef ekki trú á því, ekki frekar en ég hef trú á því að menn geti endalaust stækkað myntsvæðin. Ég hef aftur á móti trú á þeirri kenningu að það séu ákveðin mörk á stærð myntsvæða.

Þess vegna er sú umræða sem snýr að þessum málum mjög áhugaverð. Það væri alveg þess virði að við tækjum einhvern tímann alvöruumræðu um þessa hluti í þinginu vegna þess að þeir skipta okkur svo gríðarlega (Forseti hringir.) miklu máli.