140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í morgun ræddum við við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvernig menn geta leyst skuldir sínar. Hann taldi að menn borguðu bara en ég bætti því við að menn gætu líka borgað með því að láta myntina rýrna með verðbólgu og með því að fá skuldirnar niðurfelldar. Það er það sem menn gera út um allan heim. Nú er 3% verðbólga á evrusvæðinu, 3% á dollarasvæðinu og vextir kannski 1% eða 2% þannig að verið er að brenna upp skuldir og innstæður. Það væri ekki hægt ef það væri gullfótur.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér hugmyndir Kínverja sem eru byrjaðir að búa til eins konar náttúruauðlindafót eða hafa slegið fram þeim hugmyndum um að birgðir af áli og gulli og alls konar korni sem yrðu fótur fyrir allar myntir?