140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom að í ræðu minni hvað varðar hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og möguleika hans til að styðja við hin stóru og miklu lönd Evrópu, Ítalíu, Spán og fleiri, og síðan samstarf Evrópuríkjanna, hefur verið lagt til að það fari fram innan vébanda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hluta, til að styðja við stöðugleika sjóðsins. Eitt er auðvitað fjármögnun á slíku, annað er síðan aukið hlutafé inn í sjóðinn.

Úr því hv. þingmaður spurði mig nákvæmlega þá hefði ég viljað hafa það alveg á hreinu hvaða afstöðu aðrar þjóðir taka, Norðurlandaþjóðirnar allar og aðrar þjóðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bara allar með tölu. Eitthvert slíkt yfirlit hefði þurft að fylgja hér með í gögnum fyrir þessa umræðu svo við hefðum það á hreinu þannig að við værum ekki að velta því fyrir okkur í umræðunni. Þess vegna held ég að nær væri að milli umræðna yrði þetta mál tekið af nefndinni og klárað yrði að vinna það.

Eitt af því sem ég vil fá að vita er: Skiptir máli að þetta klárist fyrir áramót? Er það dagsetning sem hefur mikilvægt gildi? Eða er í lagi að við tökum þessa ákvörðun og göngum frá henni í janúarmánuði eða febrúarmánuði? Ég átta mig ekki á því, það er kannski af því ég hef ekki lesið málið nægilega vel. En ég vil vita það fyrir víst hvort sú dagsetning sé krafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvort hún sé ófrávíkjanleg, þannig að við getum þá haft nægan tíma til þess að átta okkur á öllum meginatriðum málsins.

Ég endurtek, hér er um verulegar fjárhæðir að ræða og þær kunna að tapast ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lendir í miklum áföllum. Þau þurfa ekki öll að verða reyndar út af Evrópu, þau geta orðið (Forseti hringir.) fjarri okkar ströndum.