140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sem hv. þingmaður er að vísa til sé einmitt samstarf evruríkjanna innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sá pottur sem þar er verið að búa til. Þá vísa ég enn og aftur til þeirra ákvarðana sem Bretar tóku þegar kom að því að búa til þennan strúktúr eða þetta fyrirkomulag um dýpra samstarf þessara ríkja. Það er eðlilegt að það séu þá evruríkin sem stundi slíkt samstarf og einnig er eðlilegt að evruríkin standi að því að tryggja það að þessi mynt haldi. Það getur ekki verið verkefni annarra.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hugsaður þannig að hann eigi að grípa inn í og hjálpa ríkjum sem lenda í erfiðleikum, tímabundnum erfiðleikum auðvitað, það sé hlutverk hans. Um margt hefur það verið ágætt þótt líka sé hægt að deila á margt sem sjóðurinn hefur gert og hvernig hann hefur hagað sínum málum.

Ég er því ekki á móti því að við tökum þátt í starfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þurfa að leggja fram fjármuni o.s.frv. en ég vil ekki gera það nema að vel athuguðu máli. Ég vil vita nákvæmlega hvað aðrar þjóðir eru að gera í þessum efnum. Ég vil vita allar tímasetningar. (Forseti hringir.) Ég vil líka að við gerum okkur um leið ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem verið er að taka, ekki bara við hér í þinginu heldur þjóðin öll.