140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:54]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni afar skrýtið mál eins og fram hefur komið í ræðum þingmanna. Þetta mál kom á dagskrá þingsins 8. desember, í dag er 16. desember og það á að fara að afgreiða málið úr þinginu.

Mig langar aðeins að benda á vegna ummæla hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan þar sem hann velti fyrir sér hvað lægi á í þessu máli. Það liggur ekkert á, frú forseti, að klára þetta mál á þessu þingi því að á bls. 11 í frumvarpinu kemur fram hvað þarf til til að samþykkja þessa kvótaaukningu og vísa ég í það að þar stendur, að þetta skuli innleiðast fyrir 31. desember 2011 en framkvæmdastjórn geti framlengt þennan frest. Framkvæmdastjórnin getur framlengt þennan frest að eigin vild.

Ég geri það að tillögu minni, frú forseti, að þetta mál verði tekið af dagskrá því að það hefur komið fram mjög mikil gagnrýni hér í umræðunum frá aðilum í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem málið er órætt í nefndinni. Málið hefur ekki verið sent út til umsagnar en venjulega hafa umsagnaraðilar hálfan mánuð til að gefa umsagnir um frumvörp. Sérstaklega er það mikilvægt í ljósi þess að um er að ræða skuldbindingar íslenska ríkisins, ríkissjóðs, upp á tæpa 40 milljarða sem eru ekki til. Hvar ætlar hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sem lætur ekki svo lítið að sitja hér og hlusta á umræðurnar í dag, að finna þetta fé? Að vísu á að greiða núna rúma 9 milljarða til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en restin sem nemur tæpum 28 milljörðum verður lögð fram í íslenskum krónum. Þær verða ekki inntar af hendi heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kröfu á Seðlabanka Íslands sem því nemur.

Þetta eru óhuggulegar staðreyndir sem birtast í þessu frumvarpi, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða svo miklar skuldbindingar fyrir Seðlabankann og þar með íslenska ríkið, en hæstv. fjármálaráðherra hendir inn í þingið hverju frumvarpinu á fætur öðru með margra tuga milljarða skuldbindingum fyrir ríkissjóð og ætlast til þess að þingmenn taki því fagnandi.

Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra hafi misst yfirsýnina yfir það hvað búið er að skuldbinda íslenska ríkið því að hér stendur, með leyfi forseta, neðst á bls. 16 í frumvarpinu í fylgiskjal II sem er umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Ekki er því gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi bein áhrif á útgjöld eða skuldbindingar A-hluta ríkissjóðs.“

Hér er verið að stunda hinar grísku bókhaldsbrellur sem urðu Grikkjum fyrir rest að falli þegar Grikkir voru að fegra ríkisbókhald sitt til að komast inn á evrusvæðið. Það tókst svona ljómandi vel en þar var verið að færa ríkisskuldir á aðra hluti ríkissjóðs en komu fram í bókhaldi. Hæstv. fjármálaráðherra hefur greinilega lært mikið af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þann stutta tíma sem hann hefur starfað við hlið hans. Einhver þingmaður sagði í dag að það kæmist ekki hnífurinn á milli hæstv. fjármálaráðherra og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo mikið legði hann sig í líma við að koma þessu í gegnum þingið, því að í þessari umræðu hefur orðið opinbert að önnur aðildarríki ætla að hinkra við með að leggja sjóðnum til fé á meðan það versta gengur yfir til dæmis með evruna.

Breytingin á hæstv. fjármálaráðherra er alveg einstök frá því að hann var í stjórnarandstöðu. Ég gerði það að leik mínum að fletta upp í ræðum núverandi hæstv. fjármálaráðherra frá því að hann var í stjórnarandstöðu. Ég er hér með nefndarálit sem hann skrifaði 5. desember 2008. Það nefndarálit er um þá þingsályktunartillögu þegar Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli viljayfirlýsingar þáverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Varðandi þá leynd sem fjármálaráðherra hefur farið fram með í máli eftir máli þá skulum við taka þá hörmungarsamninga sem hann ætlaði að leiða yfir þjóðina, Icesave I, II og III, án þess að nokkur fengi að sjá þá samninga raunverulega fyrr en þeim var lekið til fjölmiðla. Þetta er enn eitt málið, skuldbindingar ríkissjóðs upp á tæpa 40 milljarða. Það er SpKef sem ekkert liggur á bak við og svo mætti lengi telja. Hann kemur hér með hvert frumvarpið á fætur öðru.

Ég ætla að vísa aftur í það nefndarálit sem ég var byrjuð að tala um áðan þar sem sjálfur hæstv. núverandi fjármálaráðherra hefur orðið. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr því, en þarna var sem sagt verið að sækja um aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum:

„Við slíkar aðstæður er það frumskylda stjórnvalda að halda þjóð og þingi vel upplýstu um staðreyndir og gang mála, leita víðtæks samráðs á opinberum vettvangi um stórar ákvarðanir sem hafa afleiðingar langt inn í framtíðina og fylgja í einu og öllu lýðræðislegum, opnum og gagnsæjum vinnubrögðum við ákvarðanatöku. Í þessum efnum hafa stjórnvöld alfarið brugðist og með pukri og leynd leitt þjóðina inn í öngstræti þess eina úrræðis sem boðið hefur verið upp á — áframhaldandi skuldsetningu upp á annað þúsund milljarða í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skilmála hans.

Með því að ganga að þeim skilmálum sem þessi þingsályktunartillaga [frá 2008] ber með sér hneppa stjórnvöld íslensku þjóðina í sársaukafulla skuldafjötra og gangast inn á skilyrði á borð við vaxtahækkanir, niðurskurð á útgjöldum hins opinbera og önnur pólitísk skilyrði sem ganga beinlínis gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þessu tengd er alhliða uppgjöf ríkisstjórnarinnar fyrir Evrópusambandinu í nauðasamningum sem snúa að ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave-reikningum Landsbankans. Þar með er íslenskri alþýðu gert að borga dýrum dómum fyrir áhættufíkn auðvaldsins og ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda. Öll vinnubrögð í þessum efnum hafa einkennst af vanvirðingu fyrir þingræðis- og lýðræðishefðum. Alþingi Íslendinga er ítrekað sniðgengið í ákvarðanatöku um þessi feikilegu hagsmunamál og leynt og ljóst haldið frá upplýsingum. Þá er almenningi öllum, sem borga á brúsann, gert að búa við stöðugan skort á upplýsingum og misvísandi, áróðurskennd skilaboð um stöðu mála.“

Herra forseti. Það er eins og við í stjórnarandstöðunni hefðum verið að flytja þessa ræðu í dag. Nei, þetta sagði hæstv. núverandi fjármálaráðherra í desember 2008 en þá var hann ekki í ríkisstjórn. Þá var hann stjórnarandstæðingur og hvað gerist þegar sá hv. þáverandi þingmaður kemst í ríkisstjórn? Jú, hann temur sér þau vinnubrögð sem hann fór gegn í þessu nefndaráliti.

Herra forseti. Þetta er óásættanlegt hvernig núverandi hæstv. fjármálaráðherra starfar. Ég er nú að hugsa um að gera þá kröfu fyrst ég er komin í ræðustól að fara fram á það að hæstv. fjármálaráðherra verði kallaður í þingið til að ræða þessi mál.

(Forseti (SIJ): Forseti mun kanna það hvar hæstv. fjármálaráðherra er staddur.)

Ég þakka forseta fyrir það. Hæstv. fjármálaráðherra á ekki að komast upp með það að vera fjarverandi í þessari umræðu því að við þingmenn höfum óteljandi spurningar til handa ráðherranum. Eins og ég sagði er verið að sturta inn í þingið tæplega 40 milljarða kr. skuldbindingu og það rétt fyrir jólahlé og helst að nóttu til. Þetta mál ber svo fljótt að að það er lágmarkskrafa að hæstv. fjármálaráðherra komi hér.

Það er líka gaman að grípa niður í nefndarálit hæstv. núverandi fjármálaráðherra þegar þessi lántaka stóð fyrir dyrum. Þar gagnrýnir hann Alþjóðagjaldeyrissjóðinn harkalega og vinnubrögð hans. Ég minni á að þetta mál var til breytinga á samþykktum til að hækka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann finnur sjóðnum allt til foráttu í nefndarálitinu að það er hreint með ólíkindum að hann skuli svo koma fram með þetta frumvarp nú. Með leyfi forseta, ætla ég að grípa aftur niður í nefndarálit frá hæstv. núverandi fjármálaráðherra frá því í desember 2008:

„Það getur með engu móti talist ráðlegt að keyra ríkissjóð niður úr kannski 200 milljörðum niður í núll á nokkrum árum þar á eftir. Slíkt felur augljóslega í sér óboðlegan niðurskurð í íslenska velferðarsamfélaginu og væntanlega hækkun skatta um leið.“

Herra forseti. Hvaða leið fór núverandi ríkisstjórn þegar hún tók við völdum? Algjöran opinberan niðurskurð í viðkvæmustu málaflokkunum og miklar skattahækkanir. Þær skattahækkanir sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir eru á bilinu 140–150. Talan er ekki alveg á hreinu sem segir hversu erfitt er að telja þetta saman, en þetta er algjört hneyksli að hæstv. fjármálaráðherra skuli hafa talað með þessum hætti fyrir nákvæmlega þremur árum. Hann fer í ríkisstjórn tveimur mánuðum síðar og tekur upp alveg sömu stefnu og hann gagnrýnir hér.

Svo langar mig til að vísa í það hvernig hann fjallar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á þessum tíma, með leyfi forseta:

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlast til að skuldirnar séu greiddar hratt og örugglega, í þágu hagsmuna alþjóðlegra fjármagnseigenda, og er þá að engu haft þótt það bitni með skelfilegum afleiðingum á innri samfélagsgerð okkar, velferðarkerfi og atvinnustigi.

Ýmsir aðrir skilmálar í „samkomulagi“ ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru álíka varhugaverðir. Þannig hlýtur til að mynda ýmsum að bregða í brún við skilyrði sem lúta að kjarasamningum og þá vekur furðu að sérstaklega sé tekið fram að ráðlegt gæti verið að einkavæða bankana sem fyrst aftur. Hvað með reynslu okkar sjálfra? Stríðir hún ekki gegn þessari blindu hugmyndafræði, höfum við þá ekkert lært?“

Herra forseti. Hvað gerir hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kemur í ríkisstjórn? Jú, hann fer beint í það að einkavæða bankana upp á nýtt. Það er líklega dýrasta einkavæðing sem við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir. Hann afhendir andslitslausum kröfuhöfum tvo af bönkunum án þess að skipa til þess nefnd. Það var þó einkavæðingarnefnd sem stóð að einkavæðingu bankanna í byrjun aldarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra kemur fram með þessa gagnrýni fyrir þremur árum og fer alveg sömu leið og hann er að gagnrýna.

Það fer um mann hálfgerður kjánahrollur við að glugga í þessar ræður hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig hægt sé að skipta um skoðun á einni nóttu. Hvernig hægt sé að skipta um plötu í hausnum á manni sem hagar sér með þessum hætti. Það eitt að fá ráðherrastól varð til þess að hæstv. fjármálaráðherra umpólaðist. Það er svo sannarlega hægt að tala um umpólun í þessu tilviki.

Svo fer hann áfram með mikla gagnrýni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þessu nefndaráliti. Sem dæmi get ég gripið niður í þessa setningu, með leyfi forseta:

„Ber Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hag íslenska velferðarsamfélagsins fyrir brjósti eða stendur honum nær að passa fyrst og fremst upp á framgang alþjóðlegra fjármagnseigenda? Reynslan víða gefur skýr svör við þessari spurningu og er dapurt til þess að vita að öfl, sem ekki standa velferð íslensks samfélags nærri, skuli nú ráða hér lögum og lofum.“

Þetta er sagt í desember 2008. Hvað leggur hæstv. fjármálaráðherra til í desember 2011? Jú, að skuldbinda íslenska ríkið til að standa straum af greiðslum upp á tæpa 40 milljarða, ef illa fer, til þess sjóðs sem hann fann allt til foráttu fyrir þremur árum. Það hljóta allir að sjá hve manninum hefur snúist hugur. Það hljóta allir að sjá hversu arfavitlaus stefna þetta er hjá hæstv. fjármálaráðherra, arfavitlaus stefna. Svona talar hann í ræðum sínum frá því 2008, (Gripið fram í.) um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, skrímsli má eiginlega segja þegar maður les ræður hans, og leggur svo til þessa skuldbindingu hér þremur árum seinna.

Það er nokkuð merkilegt líka, því að nú höfum við farið í gegnum fjáraukalög og samþykkt þau, við höfum samþykkt fjárlög fyrir 2012 og svo kemur þessi útgjaldaaukning í þessu frumvarpi, að í nefndarálitinu frá 2008 segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta — ég held hann ætti að rifja þessa ræðu aðeins upp:

„Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins er bannað að greiða fé úr ríkissjóði nema með heimild í fjárlögum eða öðrum lögmætum fjárheimildum.“

Það er hvergi minnst á þessa skuldbindingu í fjárlögunum og verði þetta frumvarp að lögum fyrir jól má í raun segja að forsendur fjárlagafrumvarpsins séu brostnar, því að hér á að fara strax eftir samþykkt frumvarpsins með 8 milljarða úr landi í erlendum gjaldeyri. Herra forseti. Þetta eru alvarlegar staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir.

Það er líka gaman að sjá í nefndaráliti þessu sem hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrir í desember 2008 að þar fjallað um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég ætla að grípa aðeins niður í álitið aftur þar sem hann talar um fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, með leyfi forseta:

„Hið gagnstæða hefur þó ítrekað komið í ljós. Lánsumsókn íslenskra stjórnvalda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var haldið í gíslingu af ESB-ríkjum sem kröfðust þess að Íslendingar skuldbindu sig til að borga að fullu Icesave-reikningana. Með því má segja að íslensk stjórnvöld hafi með óréttmætum hætti látið nauðbeygja sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ekkert færi var gefið á því að láta á málið reyna fyrir dómstólum og krefjast sanngjarnrar málsmeðferðar. Það er því enn óljóst hverjar þjóðréttarlegar skyldur Íslands í þessum efnum voru og eru í raun.“

Virðulegi forseti. Nú hefur málið ratað fyrir EFTA-dómstólinn. Þarna er hæstv. fjármálaráðherra beinlínis að biðja um að Icesave-málið fari fyrir dómstóla þegar hann er stjórnarandstöðuþingmaður. Þegar málið er svo komið fyrir dómstóla, því var vísað þangað fyrr í vikunni, skirrist ráðherrann við og bregst hálfreiður við og telur að það verði að koma lausn sem fyrst og við verðum að standa við þær skuldbindingar sem dómurinn kemst að, er hálffúll yfir málinu og reynir að fá það undir sitt ráðuneyti með sameiningu ráðuneyta. (ÓN: Hneyksli.) Þetta er hneyksli, hv. þm. Ólöf Nordal. Já, þetta er hneyksli.

Við sitjum uppi með þessa ríkisstjórn — enn sem komið er. Ég ber þá von í brjósti að núverandi ríkisstjórn fari sem fyrst frá völdum. Það eru 497 dagar fram að kosningum, við teljum niður. Það ætti að sjálfsögðu að rjúfa þing og boða til kosninga svo illa heldur þessi ríkisstjórn á þjóðarhagsmunum Íslendinga.

Ég ætla ekki að fara að tala aftur um þessar fjárhæðir en þetta er mikil skuldbinding fyrir litla þjóð. Það er nokkuð skrýtið að sjá til dæmis það sem stendur hér í fylgiskjali I. Það kom tilkynning hingað frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess er málið varðar, dagsett 22. desember 2010. Það er starfandi ritari sjóðsins sem skrifar þetta bréf. Ég ætla að lesa úr því, með leyfi forseta:

„Ég hef þann heiður að upplýsa þig um að sjóðstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur samþykkt fyrirhugaða breytingu á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er varðar endurbætur framkvæmdastjórnar. […]

Í samræmi við grein XXVIII úr stofnskrá sjóðsins og samþykkt nr. 66-2 hefur mér verið falið að spyrja hvort ríkisstjórn þín, sem stjórn aðildarríkis að sjóðnum, samþykkir fyrirhugaða breytingu er varðar endurbætur framkvæmdastjórnar, sem var send ykkur í skýrslunni …“

Þvílíkur heiður! Líklega hefur hæstv. fjármálaráðherra fundist þetta svo mikill heiður að hann gerði þetta nánast blindandi að leggja hér til tæplega 40 milljarða skuldbindingu á ríkissjóð.

Ég ítreka það aftur að hæstv. fjármálaráðherra er vanhæfur til þeirra starfa sem hann hefur nú með höndum vegna þess að hann hefur misst sjónar á verkefninu. Hann hefur skuldbundið ríkisstjórn langt, langt umfram heimildir sínar þannig að þegar upp er staðið, þegar þessi ákveðni fjármálaráðherra fer frá völdum, hljóta verk hans, herra forseti, að verða skoðuð, því að hann skortir vald til að fara fram með ýmislegt af því sem hann hefur lagt fyrir þingið. Þar nefni ég til dæmis SpKef á nýjan leik.