140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að leiðrétta mig. Ég talaði um að 8 milljarðar ættu að fara út strax, en það eru 9,3 milljarðar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa bent mér á það.

Varðandi þessa skuldbindingu er einstaklega snjallt hjá þingmanninum að setja hana í samhengi við Icesave sem var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það að þessi skuldbinding skuli vera 5 milljörðum hærri upphæð sýnir umfang málsins. Stjórnarandstaðan var ekki tilbúin til að greiða þeirri skuldbindingu atkvæði sitt, sérstaklega ekki Framsóknarflokkurinn í lokaatkvæðagreiðslunni, og forsetinn hjálpaði til við það að koma þessu til þjóðarinnar. Þetta er svo stórt mál þegar maður lítur á það í þessu samhengi. Hvar ætlaði hæstv. fjármálaráðherra að taka peningana fyrir Icesave-skuldbindingunum? Það kom aldrei inn í fjárlög eða annað þrátt fyrir að Icesave-málið hefði komið fyrir þingið bæði í desember 2009 og 2010. Aldrei datt hæstv. fjármálaráðherra í hug að setja það inn í fjárlög eða fjáraukalög sem væntanlega skuldbindingu, vegna þess að hann vildi svo gjarnan fá að borga þann reikning.

Þannig að þetta er einkennilegt. Það er líka einkennilegt að við þurfum að reiða núna fram 9,3 milljarða til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af gjaldeyrisvaraforðanum sem við höfum tekið að láni hjá sjóðnum og borgum fyrir tæpa 6% vexti, en svo eru þeir að fá peninga hjá okkur að láni á tæpum eins prósent vöxtum. Þetta er náttúrlega bara hringavitleysa.

Þingmaðurinn spurði mig hvað ætti að gera í málinu og hvernig við ættum að afgreiða þetta hér og nú. Ég hef þegar lagt til að því verði frestað fram yfir áramót, því að þrátt fyrir að sólarlagsákvæði sé í þessu frumvarpi að kröfu sjóðsins, hefur framkvæmdastjórn sjóðsins rúmar heimildir til að framlengja því ákvæði. Það virðist nefnilega vera svo að nágrannaríki okkar séu að fara fram á þá undanþáguheimild. Þannig að auðvitað á að fresta málinu svo að það fái hér (Forseti hringir.) vitræna umfjöllun.