140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þetta sérkennilega mál. Það er sérkennilegt vegna þess að þetta stóra mál sem útheimtir bæði fjárútlát og ábyrgðir hjá íslenska ríkinu og beiðni eða erindi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur legið fyrir frá því í mars á þessu ári, er nú verið að reyna að afgreiða á síðustu dögum þingsins. Málið var aldrei sent til umsagnar. Það er ljóst að þær upplýsingar sem hv. viðskiptanefnd fékk voru í besta falli villandi. Þá er ég að vísa til þess, virðulegi forseti, að spurt var að því hvort einhver vandkvæði væru á innborgunum aðildarþjóða til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því var svarað að svo væri alls ekki, heldur væru allar þjóðir að ganga frá þessu fyrir áramót, ef þær væru ekki þegar búnar að því. En þegar menn skoða þetta nánar, og ekki með því að fá gögn frá embættismönnum eða hæstv. ríkisstjórn, kemur í ljós að mjög mikið er um að vera á þessum vettvangi sem er einfaldlega það að efasemdir eru um greiðslur í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Það ríki sem hefur verið stærst innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því Bretton Woods-samkomulagið var gert 1944, eru Bandaríkin, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var ein af þremur stofnunum sem urðu til við þetta samkomulag; þær voru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn og GATT, sem síðan varð Alþjóðaviðskiptastofnunin, eða WTO. Það liggur fyrir, í það minnsta hvað varðar hlutafjármögnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að Bandaríkjamenn ætla ekki að greiða meira. Þjóðverjar hafa miklar efasemdir og Kanadamenn hafa ekki sýnt neinn áhuga á því að vera með. Japanir segja að Evrópa verði að sjá um sig sjálf og ætla ekki að vera með. Breski forsætisráðherrann, David Cameron, hefur lýst því yfir að land hans muni einungis leggja fram 10 milljarða punda af þeim 30 sem til er ætlast af Bretum. Sömuleiðis ætlar Tékkland ekki að greiða neitt nema allar þjóðir Evrópusambandsins séu með í þessari aukningu.

Virðulegi forseti. Á sama tíma og þetta liggur fyrir er ætlast til þess að íslenska þingið gangi frá þessu án nokkurrar umræðu og án nokkurrar skoðunar eins og ekkert sé. Ég vek athygli á því að þetta eru 37 milljarðar kr. Menn geta sagt: Þetta fé kemur úr Seðlabankanum, ekki beint úr ríkissjóði, en það er nú þannig að ríkissjóður ber ábyrgð á Seðlabankanum. Þetta hangir saman.

Það sem mér finnst sérkennilegast er að fram hefur komið hjá þeim fáu stjórnarliðum sem hafa talað um þetta mál, ég held að það sé nákvæmlega einn stjórnarliði, að þetta sé ekki tímamál, ekki liggi á því, en samt sem áður halda menn áfram og ætla augljóslega að klára það, sama á hverju dynur. Þannig að við horfum upp á að ekki er rætt um þetta í nefndinni (Gripið fram í: Rétt.) og ekki í þingsalnum (Gripið fram í: Rétt.) af hálfu hv. stjórnarþingmanna. Menn vonast bara til að umræðan sé orðin slík fyrir jólin að þetta veki ekki neina eftirtekt og þetta læðist einhvern veginn eða renni í gegnum þingið.

Virðulegi forseti. Það blikka öll viðvörunarljós þegar kemur að þessu máli. Ég sakna þess mjög, vegna þess að umræðan hefur ekki verið tekin í hv. nefnd og ég held að umræðan eigi erindi til almennings, að fá ekki útskýringar hv. stjórnarliða á gæðum þessa máls. Hér er ekki um litla fjármuni að ræða, þetta eru hvorki meira né minna en 37 milljarðar kr. Mér þykir (Forseti hringir.) ótrúlegt hvað hv. stjórnarliðar sýna (Forseti hringir.) þessu máli lítinn áhuga.