140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega þannig, við erum ekki upplýst um það sem er í gangi. Ég ætla ekki að halda því fram að orðið „formsatriði“ hafi verið notað en það var látið að því liggja og sagt að búið væri að ganga frá þessu almennt annars staðar og engin vitneskja um að einhverjir hnökrar væru á því.

Hv. þingmaður hefur augljóslega unnið heimavinnuna sína á hlaupum í dag, við hv. þingmenn sem höfum tekið þátt í umræðunni höfum verið að kalla eftir upplýsingum. Hann nefndi mun fleiri dæmi en ég nefndi áðan. Það er tvennt í þessu, annaðhvort er ríkisstjórnin að halda upplýsingum frá þinginu, eða hún veit ekki betur.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að efast um að í stjórnkerfinu sé ekki fólk sem hefur bent hæstv. ráðherrum á hvað er að gerast í heiminum. Auðvitað eru yfirlýsingar til dæmis hæstv. forsætisráðherra og fleiri mætti nefna úr ráðherraliðinu þess eðlis að maður efast stundum um að þeir viti nokkuð hvað er í gangi í heiminum. Ég man eftir því að ég bauðst til þess í umræðum um Evrópumál í vor að fara með hæstv. utanríkisráðherra og hv. stjórnarliðum í næstu bókabúð og kaupa fyrir þá dagblöð og tímarit svo þeir mættu vita hvað væri að gerast í Evrópu því þeir sögðu að þar væri allt í himnalagi. Ég spurði hvern einasta samfylkingarmann að því, þar sem þetta eru nú sérfræðingar í Evrópusambandinu og evrunni, hvaða lausn þeir sæju á evruvandanum. Þeir vissu ekki einu sinni af vandanum. Auðvitað getur hver og einn bara farið á internetið og fundið upplýsingar um þetta. En augljóslega er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu máli en þá að verið sér að læða því í gegnum þingið í jólaönnum. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega alvarlegt mál. Þingmenn eru ekki upplýstir, svo einfalt er það.