140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, mál sem við höfum rætt í dag.

Efnahags- og viðskiptanefnd fundaði með Seðlabankanum núna í kvöldmatarhléi og við höfum fengið viðbótarupplýsingar sem varpa skýrara ljósi á málið. Á þeim fundi kom í ljós, samkvæmt upplýsingum sem komu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í dag, að samtals hafa 53 ríki samþykkt frumvarp sem er algjörlega sambærilegt við það sem hér liggur fyrir, 53 ríki af 187 ríkjum. Jafnframt kom í ljós, eins og kom reyndar fram í umræðunni í dag, að Bandaríkin sem eru með stærsta kvótann innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í kringum 15% — þar eru mikil álitamál og ekki víst að þau verði með. Nokkur Evrópuríki hafa þegar samþykkt þetta. Ef ég tel þau upp eru þau Frakkland, Írland, Lúxemborg, Pólland, Spánn og reyndar líka England. Það er nú þegar búið að fá samþykkt fyrir um 30% af heildarkvóta bankans. En til að þessi endurskoðun á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gangi í gildi þarf samþykki fyrir 70% þjóðanna eða 75% af kvótanum. Það mega því ekki miklu fleiri lönd en Bandaríkin, sem eru með stóran kvóta, segja nei svo málið fari ekki í uppnám.

Það hefur jafnframt verið skýrt fyrir nefndinni að ¼ af því sem Ísland undirgangist nemur 9,2 milljörðum og verður greitt í gjaldeyri sem stofnfjárframlag inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, síðan eru ¾ í íslenskum krónum. Það sem er í íslenskum krónum verður bókað sem skuld við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en vegna þess að Ísland er ekki aðili að hinni svokölluðu „Financial transactions“ áætlun innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá kemur ekki til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dragi á það nema ef svo vildi til að Ísland yrði partur af þessari Financial transactions áætlun. Ef Ísland yrði aðili að því þýddi það að íslenska krónan yrði þá orðin einn af góðu gjaldmiðlunum í heiminum getum við sagt.

Það kom jafnframt fram á fundinum að óveruleg áhætta væri við þá 9,2 milljarða sem fara sem stofnfjárframlag í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að hefð væri fyrir því á fjármálamörkuðum að lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lentu í forgangi sem krafa á ríkin. Kæmi til þess að ríki stæði ekki í skilum væri líklegt eða allar líkur á að það fengist ávallt greitt.

Þetta var góður fundur í efnahags- og viðskiptanefnd sem varpaði skýrara ljósi á málin. Það sem við höfum helst gagnrýnt í dag, þ.e. þeir sem hafa tekið til máls, er hvernig í fyrsta lagi málið bar að og í öðru lagi hvernig staðið hefur verið að því hér í þinginu, eða réttara sagt hvernig það kom inn í þingið. Ekki er hægt að sakast við formann efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að eins og málið var borið upp væri þetta bara tæknilegt atriði í framhaldi af lagasamþykkt sem gerð var í janúar síðastliðnum þegar við samþykktum að atkvæðakvóti Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði hækkaður.

Nú liggja útlínurnar fyrir. Að mínu mati hefur ekki farið fram nægilegt áhættumat. Þó svo að okkur nefndarmönnum hafi verið sagt undan og ofan af því hvernig áhættan er byggð upp þarf að gera betur grein fyrir því og núna stendur til að gerð verði minnisblöð fyrir nefndina sem hún fær væntanlega á morgun. Jafnframt kom fram að Norðurlöndin hafa öll gefið í skyn að þau mundu samþykkja sambærileg frumvörp núna fyrir áramót. Mér skilst að eitt Norðurlandanna sé langt komið með að samþykkja slíkt. Þau önnur lönd sem eru á — við getum kallað það atkvæðasvæði með okkur Íslendingum eru Eystrasaltslöndin. Eitt þeirra mun samþykkja fyrir áramót, annað mun samþykkja á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og það þriðja mun samþykkja á fyrri helmingi næsta árs.

Það segir okkur að ekkert liggur á í þessu máli fyrir okkur Íslendinga. Ég held mig enn við þá afstöðu mína að við eigum að anda með nefinu og við eigum að fara vel yfir málið og vanda nefndarstarfið þar sem við fáum jafnvel fleiri gesti en bara Seðlabankann til að leggja mat á þessa áhættu, auk þess sem þau minnisblöð sem Seðlabankinn er að útbúa fyrir nefndina munu gegna algjöru lykilhlutverki í að sannfæra nefndarmenn um að hér sé rétt að málum staðið, að áhættan sé ekki óbærileg eða áhættan sé ásættanleg.

Rétt er að geta þess í lokin að auðvitað viljum við í stjórnarandstöðunni standa vel að málinu og viljum koma þannig fram gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gagnvart alþjóðasamfélaginu, að við verðum ekki til trafala. Þótt málinu yrði frestað fram í janúar, eins og við höfum margoft lagt til í dag, er ekkert sem bendir til þess að það muni skipta neinu nema að málsmeðferðin verður vandaðri. Eins og við þekkjum til dæmis úr Icesave-málinu, að eftir því sem dagarnir líða koma meiri upplýsingar. Við höfum fengið upplýsingar sem leggjast á jákvæðu hliðina í málinu, en það eru eflaust líka upplýsingar sem leggjast á neikvæðu hliðina. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að geta mótað álit okkar og ákvörðun á vönduðum vinnubrögðum.

Ég legg til að við höldum okkur við það vinnulag sem við höfum talað fyrir í dag að málið verði sent til efnahags- og viðskiptanefndar og fjallað verði um það á vandaðan hátt og gert verði vandað nefndarálit vegna þess að þetta eru engir smápeningar sem við erum tala um, 37,2 milljarðar.