140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hélt fund nú í kvöldverðarhléi. Ég fór inn á netið og leit á dagskrána og þar var þetta mál ekki til umræðu en mér skilst á formanni nefndarinnar að nefndin hafi engu að síður rætt það og fengið upplýsingar; ég er ekkert að spyrja mikið meira út í það.

Mig langaði engu að síður til að reifa þá hugsun sem kom fram áðan, og ég veit að formaður nefndarinnar hefur talað um nokkrum sinnum, en það eru þær skuldbindingar sem Seðlabankinn getur tekið á sig fyrir hönd ríkissjóðs vegna þess að á honum er ríkisábyrgð. Ég tel nokkuð brýnt að breyta fjárreiðulögum eða reglum um það hvernig ríkisábyrgðir eru metnar, að Seðlabankinn óski þá eftir því að fá heimild Alþingis til að taka áhættu og veita ríkisábyrgð.

Þetta kom mjög berlega í ljós þegar svokölluð ástarbréf voru í gangi sem kostuðu ríkissjóð gífurlega fjármuni. Þar virtist Seðlabankinn geta skuldbundið ríkissjóð án þess að fá fyrir því heimildir. Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka á. Ég hef eiginlega alla mína ævi, herra forseti, verið talsmaður þess að allar skuldbindingar séu sýndar og agi sé í fjármálum. Eitt af því sem fylgir því að hafa aga í fjármálum er það að menn geti ekki gefið út ríkisábyrgðir svona eftir þörfum, heldur þurfi til þess samþykki Alþingis, enda er það sett í stjórnarskrána. Við þurfum að byrja á því að kanna þetta og setja ákveðin agabönd á Seðlabankann án þess að sérstakt tilefni sé til þess núna.

Dæmið sem við ræðum núna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og sérstakar yfirdráttarheimildir, segir mér að verið er að heimila Seðlabankanum að leggja stofnfé inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það fé getur tapast ef allt færi á versta veg. Þar með erum við í raun að veita Seðlabankanum ríkisábyrgð eða heimild til að taka áhættu fyrir hönd ríkisins. Það finnst mér þurfi þá að koma fram í fjárlögum eða fjáraukalögum, ekki bara í einhverri opinni heimild.

Þeir sem fylgjast með erlendum fréttamiðlum vita að gífurlega mikil umræða hefur verið í Evrópusambandinu um evruna og skuldavanda ýmissa landa, sérstaklega Grikklands. Ég vona að menn taki því ekki á þann veg að ég sé að blanda þessu máli saman við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu — sumir hafa sagt: Við skulum ganga í Evrópusambandið til að fá evru, þegar við fáum evru er allt orðið ljúft og sólin skín alla daga og rignir á nóttunni. Ég er ekki að blanda þessu saman þannig. Ég er að segja að þarna sé mjög stór alvarlegur vandi. Ég vona svo innilega að Evrópusambandinu takist að leysa þann vanda, því að það hefði skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland sem og önnur lönd í heiminum ef evran hrykki allt í einu upp af, það yrði mjög slæmt. Segjum að nauðsynlegt reynist að kljúfa evrusvæðið í tvennt og ef það verður gert rólega og skipulega gæti þetta verið í lagi, en ef einhver sprenging verður geta menn farið yfir í hluti sem eru mjög slæmir. Ég les hér að yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, frú Lagarde, varar við alheimskreppu, hún er að vara við því, og það var bara í gær.

Það sem getur gerst þegar hlutir af þessu tagi gerast, eins og gæti gerst með evruna, er að þá fara þjóðríkin að verja sinn iðnað og sitt svæði og við gætum lent í verndartollum og verndaraðgerðum allra ríkja heims. Alheimsviðskiptin mundu þá dragast mjög hratt saman á kostnað hagræðis og viðskipta. Það gæti orðið gífurlega skaðlegt fyrir íslenskt efnahagslíf en við byggjum það jú öllum þjóðum fremur á erlendum viðskiptum. Við framleiðum enga bíla, við framleiðum engar þvottavélar eða ísskápa eða neitt slíkt; við verðum að flytja allt slíkt inn. Við byggjum á því að flytja út fisk og ál og við byggjum á ferðaþjónustu. Við byggjum mjög mikið á frjálsum viðskiptum og það gæti því orðið mjög skaðlegt fyrir Ísland ef Evrópa fer út í verndartilburði sem yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að vara við.

Þetta tengist því máli sem við ræðum hér. Við ræðum um aukningu á stofnfé til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sama tíma og verið er að ræða hina miklu björgunarhlíf sem menn eru að takast á um í Evrópusambandinu. Mér skilst á formanni nefndarinnar að björgunarhlífin sé ekki í beinum tengslum við það sem við ræðum hér. Það mátti skilja af fréttum að utan að þetta væri sami pakkinn, en svo er ekki.

Einnig komu fram upplýsingar um það, alla vega óformlega, frá formanni nefndarinnar að ekki væri hægt að taka innstæðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í krónum, sem eru 2/3 upphæðarinnar eða meira en það, til handargagns fyrr en krónan væri orðin alþjóðlegur gjaldmiðill. Það er kannski ekki mikil ástæða til að óttast það. Þá er eiginlega eingöngu um að ræða þá milljarða sem verða fluttir af gjaldeyrissjóði Seðlabankans yfir á reikning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og teljast þá áfram gjaldeyrisvarasjóður. En ef illa fer fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mun hann nota þá upphæð og á hana þá eins og stofnfé í sparisjóði, þ.e. til tryggingar útlánum eða ráðstöfunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég ætla að nota síðustu mínúturnar til að fara í gegnum það af hverju ég hef áhyggjur af þessari upphæð — hún er reyndar orðin miklu lægri, en engu að síður eru þetta tugir milljarða. Ég hef áhyggjur vegna þess að víða um allan heim brenna eldar og skuldavandinn er að fara með þjóðir. Ég held að við Íslendingar ættum nú að læra af því sem og af hruninu og snúa við blaðinu og fara að stunda sparnað og ráðdeild, leggja fyrir, eiga fyrir því sem við kaupum, geta staðgreitt bíla, sjónvörp og síma og annað slíkt, það á að vera reglan. Ég get fallist á að fjölskyldur eða heimili skuldsetji sig fyrir íbúð og námi, slík lán eru fjárfesting og eiga að skila hagnaði og mynda eign.

Við þurfum að snúa við blaðinu og læra af því sem gerst hefur, þetta er spurningin um val; að borga hlutina áður eða eftir að maður kaupir þá, þ.e. hvort fólk safnar fyrir hlutunum og kaupir þá svo eða hvort það kaupir hlutina strax og greiðir skuldina niður með vöxtum, þetta er spurningin um hvort vextirnir vinna með manni eða á móti.

Ef við ætlum að snúa við blaðinu þarf að byrja á því að örva og hvetja fólk til sparnaðar. Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur því miður gert allt til þess að ráðast á sparnað. Vextir hafa verið neikvæðir síðan 2006. Vextir á meginhluta innlána, sem eru óverðtryggðir reikningar þar sem 70–80% af innstæðum heimilanna eru, hafa verið neikvæðir og það sparifé hefur brunnið upp. Það er eitthvað sem stjórnmálamenn eiga ekki að líða. Það er verra, og kannski það óréttlátasta í þessu, að þeir sem neita sér um ferðalög og bíla og annað slíkt og dýr föt og leggja fyrir fá neikvæða vexti og þessir neikvæðu vextir eru þess utan skattlagðir.