140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[20:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þegar ég hélt fyrri ræðu mína í dag kallaði ég eftir upplýsingum sem mér fannst vanta um málið, í fyrsta lagi um vaxtamuninn sem myndast þegar Seðlabankinn leggur inn innstæðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum af gjaldeyrisvaraforða landsins. Þetta breytir í raun og veru ekki stöðu gjaldeyrisvaraforðans, en við erum með gjaldeyrisforðalánin á 5,5% vöxtum og endurlánum síðan AGS með um 0,14% vöxtum, sem gerir 500 milljónir á ári.

Í öðru lagi kallaði ég eftir upplýsingum um hvort vextir mundu leggjast á þá innstæðu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eignast hjá Seðlabankanum sem er restin af þessum 37,2 milljörðum, eða kringum 28 milljarðar. Þarf Seðlabankinn að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vexti á þær íslensku krónur sem eru inni í Seðlabankanum?

Síðan hefur það gerst í millitíðinni, það kom fram í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og andsvörum hans og hv. þm. Helga Hjörvars, að haldinn var fundur í efnahags- og viðskiptanefnd í kvöldmatarhléi áðan þar sem farið var betur yfir málið en áður hafði verið gert, með fulltrúum frá Seðlabanka Íslands. Í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar sem gerði grein fyrir fundinum kom fram að á honum hefðu fengist upplýsingar um þennan vaxtamun og einnig hvernig farið yrði með innstæðuna í Seðlabankanum í íslenskum krónum, og menn væru því ekki jafntrekktir yfir þessu og áður.

Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að ég teldi mun skynsamlegra að menn hefðu unnið þetta mál betur áður en það kom til 2. umr. Þá hefðu menn ekki þurft að spyrja þessara spurninga og halda hér langan þingfund um þetta mál og boða til fundar í efnahags- og viðskiptanefnd til að fá þær upplýsingar sem kallað hefur verið eftir í allan dag. Ekki hafa hv. stjórnarliðar komið hingað og upplýst okkur og svarað spurningum okkar.

Ég staldraði nokkuð við tvennt í orðaskiptum þeirra hv. þingmanna sem ég nefndi áðan. Í fyrsta lagi varðandi innstæðuna í krónum hjá Seðlabanka Íslands sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fær við að hækka kvótann um 3/4. Það var ekki talið líklegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mundi draga á þessar krónur, vegna þess að í raun og veru væri íslenska krónan ekki gjaldgengur gjaldmiðill í alþjóðlega fjármálakerfinu. Þess vegna voru líkurnar taldar litlar á því að sjóðurinn mundi gera það og þess vegna gætum við ekki tekið þátt í svokallaðri FTP-áætlun eða fjárskiptaáætlun sjóðsins, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar þýddi það.

Þá staldraði ég aðeins við og hugsaði með mér að ef það sem hindrar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti dregið á þessa tæpu 30 milljarða króna innstæðu sem merkt er honum í Seðlabanka Íslands, er að gjaldmiðillinn er ekki gjaldgengur í þessum alþjóðlegu fjárskiptum — svo virðist vera þó að menn bíði eftir frekari upplýsingum — hvað mundi þá gerast ef aðildarviðræðum við Evrópusambandið lyki eftir ákveðinn tíma með þeim hætti að Íslendingar fengju að taka upp evruna með stuttum fyrirvara, segjum eftir tvö, þrjú ár? Þá værum við komin með gjaldgengan gjaldmiðil. Þá myndast hugsanlega sú hætta, að mínu viti að minnsta kosti, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gæti dregið á innstæðu sína í íslenskum krónum ef búið væri að skipta gjaldmiðlinum í evru. Ég staldraði aðeins við þetta þó svo að allir viti skoðun mína á aðild að Evrópusambandinu, ég vil ekki ganga í Evrópusambandið en því miður er ekki öruggt að það geti ekki gerst, sérstaklega vegna þess á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. En þá gæti komið upp sú staða að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segði: Nú hefur þessi 30 milljarða króna innstæða okkar í íslenskum krónum breyst yfir í evrur og nú ætlum við að draga á þetta og taka innstæðuna, því að hún er merkt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er fyrra atriðið sem ég staldraði dálítið við, hvort þessi staða gæti komið upp.

Í öðru lagi, eins og kom fram í máli hv. þingmanna, er beðið eftir minnisblöðum og frekari upplýsingum frá Seðlabankanum. Ég verð að hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að kalla fleiri að borðinu á fund nefndarinnar til að vanda vinnubrögðin. Þegar við fjöllum um mál sem varðar tæpa 40 milljarða, þetta eru 37,2 milljarðar, er það ekkert smámál. Það væri mjög erfitt fyrir okkur að loka fjárlagagatinu ef við fengjum þessar tölur í fangið. Þannig að ég hvet hv. efnahags- og skattanefnd og forustumenn hennar að vanda mjög vinnubrögðin.

Það kom líka fram í máli þessara tveggja hv. þingmanna að ekki hefðu nema 53 ríki af 187 samþykkt þessa aukningu á kvótanum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvað er því til fyrirstöðu að gera samkomulag um að málið verði ekki tekið til 3. umr. núna í desember á þessum síðustu dögum þingsins? Það verði ekki gert nema um málið sé full samstaða og allir séu orðnir fullvissir um að í lagi sé að afgreiða málið og þær upplýsingar sem klárlega vantar um málið séu komnar til þingsins. Hvað er því til fyrirstöðu að vanda sig, gefa sér tíma og vinna málið og taka það fyrir í janúar? Ég held að það muni ekkert gerast. Það kom fram í máli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að ekkert mundi gerast sem hefði áhrif á þetta mál.

Ég staldraði við annað þegar hv. þingmaður, sem ég hef vitnað hér dálítið í, flutti þinginu upplýsingar um fundinn í efnahags- og viðskiptanefnd. Svo virðist sem þeir gestir sem voru á fundinum hafi sagt að skapast hefði hefð fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nyti forgangs, þ.e. að þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánar ríkjum í vandræðum er hefð fyrir því að lán hans hafi notið forgangs sem krafa á ríkin.

Ég verð að benda á það, virðulegi forseti, að miðað við þær aðstæður sem hafa verið uppi á fjármálamarkaðnum, þó ekki sé nema undanfarin þrjú ár eða svo, hafa margar hefðir sem gilt hafa í gegnum tíðina verið brotnar. Ég staldra dálítið við það hvort lánveitingar sjóðsins séu algjörlega pósitífar, að lán hans njóti alltaf forgangs, eða hvort það er bara hefð í gegnum tíðina. Þetta er dálítið mikilvægt atriði fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að fara vel yfir, vegna þess að þó að hefðin hafi verið þessi undanfarin ár eða áratugi, er ekki víst að það gildi lengur. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvort lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins njóti forgangs, eða hvort þetta er bara einhver hefð því að á það er ekki hægt að treysta að mínu mati. Þetta ákvæði verður að liggja alveg kristaltært fyrir þegar menn afgreiða málið, hvort þetta er algerlega pósitíft eða byggist á hefð.

Ég vil í lokin ítreka það sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar í dag. Við höfum fjallað töluvert um þetta mál og við höfum fjallað um fjárlögin, og mér virðist síðasta breyting á þingsköpum búa til allt of mörg flækjustig. Markmiðið var að gera vinnu nefndanna markvissari, fækka nefndum þannig að menn gætu einbeitt sér að starfi, flestallir í einni nefnd, að hámarki tveimur, og vanda vinnubrögðin. Það hefur gengið akkúrat í þveröfuga átt bæði hvað varðar tekjuhlið fjárlaganna sem er nú munaðarlaus og hvernig þetta mál ber upp, að það skuli vera hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Með fullri virðingu fyrir öllum fulltrúum sem sitja þar, hefði ég talið eðlilegra að þetta mál ætti heima í hv. fjárlaganefnd vegna þess að það fjallar um fjárskuldbindingar ríkisins. Mjög mikilvægt er að það sé ekki á floti í mörgum nefndum þannig að menn hafi heildaryfirsýn og geti fylgst með eins og vera ber.