140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem lét kannski ekki mikið yfir sér í kynningu en er afskaplega stórt. Það er ekki bara stórt vegna þess að um er að ræða skuldbindingu upp á 37,2 milljarða kr., þá vísa ég til þess að við erum að tala um að auka stofnfjárframlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, heldur erum við búin að vera aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá stofnun hans. Hann var ein af þremur Bretton Woods-stofnunum — það var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Alþjóðabankinn og síðan GATT-samkomulagið sem seinna varð WTO, þ.e. Alþjóðaviðskiptastofnunin. Við eigum þess kost og þurfum að staðfesta það ef við ætlum að vera áfram aðilar með sama prósentuhlutfall og áður, eða réttara sagt það sem var gert ráð fyrir að við yrðum með sem stofnfjáreigendur að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta eru um 37 milljarðar og 25% af því eru 9,3 milljarðar sem við leggjum inn í erlendum gjaldeyri í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og eru núna á erlendum reikningum en færu inn á reikninga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með 0,14% vöxtum. Nú ber þess að geta að flest lán sem við notum til þess að fjármagna gjaldeyrisvarasjóð landsmanna, en þetta yrði áfram skilgreint sem gjaldeyrisvarasjóður, eru á 5,5% vöxtum. Síðan hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðgang að 28 milljörðum í Seðlabankanum en menn telja litlar líkur á að af því geti orðið af ástæðum sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór ágætlega yfir hér áðan.

Okkur var kynnt þetta þannig að fyrst og fremst væri um formsatriði að ræða og allar þjóðir væru búnar að ganga frá þessum málum. Þegar við skoðum hins vegar málið með því að leita á internetinu og annars staðar kemur í ljós að miklar deilur eru um þetta stofnfjárframlag hjá þjóðum. Bandaríkjamenn eru t.d. mjög skeptískir og hafa sagt að þeir ætli ekki að taka þátt í auknum fjárframlögum til sjóðsins. Sama á við um Kanadamenn og Japanar vilja í það minnsta ekki taka þátt í þessari sérstöku fjármögnun Evrópuríkjanna. Þá vísa ég til þess, virðulegi forseti, að Evrópuríkin ætla að taka sérstaklega á þeim gríðarlega efnahagsvanda hjá Evrópusambandinu og einstaka aðildarríkjum þess með því að nota strúktúrinn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fram hefur komið að Þjóðverjar, Slóvakar, Tékkar, Ungverjar, Búlgarar og Bretar hafa verið mjög tregir að taka þátt í slíku.

Einhver kynni að segja að þetta sé annar pottur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þetta tengist honum ekki. Það er ekki rétt því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er einn sjóður. Það væri ábyrgðarleysi af okkur að skoða þetta ekki í samhengi og sjá hvernig þessi mál liggja nákvæmlega, líta aðeins undir yfirborðið og athuga hvað er á döfinni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hvers vegna tregða er hjá einstökum aðildarríkjum, vegna þess að þau hljóta að hafa rök fyrir því, og hvaða áhrif þetta hefur. Menn segja sem svo, virðulegi forseti, að Bandaríkjamenn hafi alltaf verið frekar tregir í taumi en þeir komi á endanum og vitna jafnvel í hinn merka stjórnmálamann Winston Churchill. Ég mundi ekki bóka það núna, ég held að það sé ekki sjálfgefið.

Það er þess virði að fara í það minnsta yfir málið og skoða það gaumgæfilega. Það er enginn bragur á því að ganga frá máli sem kallar á vaxtakostnað upp á 400–450 milljónir á ári hjá Seðlabankanum, sem er á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, án þess að skoða það gaumgæfilega og ganga frá alvörunefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Reyndar er málið þess eðlis og við erum að tala um slíkar upphæðir að ég get ekki séð hvernig það samræmist þingsköpum að láta ekki hv. fjárlaganefnd fara sérstaklega yfir það. Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að þetta mál verði unnið betur. Ég efast ekki um að líkur eru á því (Forseti hringir.) að ná góðri sátt, ég tala nú ekki um að ljúka málinu með sóma. (Forseti hringir.)

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn að virða ræðutíma.)