140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur verið mjög athyglisverð. Enn á ný verðum við því miður vitni að því í þinginu að mál eru sett fram á ógnarhraða og með slíkum handarbakavinnubrögðum að ekki er nokkur leið að henda reiður á hvað við ætlum að fá út úr þessu. Við erum að tala um gríðarlegar skuldbindingar.

Ég fagna því að loksins gafst nefndinni tækifæri til að fund með þeim sérfræðingum sem gerst þekkja málið. Eftir þann fund skilst mér að málið hafi eitthvað skýrst. Það er samt óásættanlegt að hér skulum við vera korter yfir níu 16. desember þegar þingið á að vera farið heim og klukkutími er síðan þessum fundi lauk, fundi sem hefði átt að vera haldinn þegar málið var sett á dagskrá og mælt var fyrir því. Núna fáum við þessar upplýsingar. Það er ekki nema von að menn velti fyrir sér hvort þetta séu vinnubrögð sem við hér í þinginu getum verið stolt af.

Ég vildi koma upp, herra forseti, og gera athugasemd við þessi vinnubrögð. Þetta er ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn sem við verðum vör við slíkt. Ég treysti því að á milli 2. og 3. umr. verði málið tekið í nefnd og nánari grein gerð fyrir þeim athugasemdum og áhyggjuefnum sem komið hafa fram í vinnu nefndarinnar. (Gripið fram í.)