140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sýnt okkur það á Íslandi að hann getur komið til aðstoðar ef á þarf að halda en það er hins vegar mjög slæmt þegar um sjóðinn standa deilur og starfsemi hans er tortryggð. Það er nákvæmlega það sem gerðist á Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ákvað að setja stjórnvöldum ákveðnar reglur sem stjórnvöld samþykktu að sjálfsögðu að spila eftir. Nú hefur það heyrst í þessari umræðu að mikilvægt sé að sýna sjóðnum þá kurteisi að þakka fyrir það með því að samþykkja það mál sem hér er til umfjöllunar. Það er sjónarmið út af fyrir sig en það er hins vegar ekki það sjónarmið sem á að ráða för. Sem betur fer hefur margt skýrst í þessari umræðu og á fundi nefndarinnar sem haldinn var áðan sem þýðir það að við munum fara að geta fengið heildarmyndina. Kannski hefðu einhverjir stjórnarliðar mátt taka þátt í umræðunni til að flýta fyrir henni. Það hefði skýrt ákveðna hluti sem kallað hefur verið eftir og við höfum þurft að sækja, en við umfjöllun þessa máls hefur komið upp umræða um þann vanda sem herjar á Evrópu og heiminn sem snýr að fjármálakerfinu. Evrópufréttirnar sem við fáum núna með stuttu millibili — þetta uppfærist ótt og títt á stóru fréttamiðlunum úti — eru flestar á þann veg að enn halli undan fæti. Spánn er enn í vanda og þrátt fyrir að Spánverjar hafi sloppið ágætlega frá skuldabréfaútboði hefur lítið breyst þar. Það er svipuð krafa, sýndist mér, á ákveðnum bréfum er varða bæði Þýskaland og raunar Grikkland sem er svolítið sérstakt. Þetta segir okkur að við erum langt frá því að vera komin í skjól með Evrópu og Evrópusambandið og þá evruna.

Nú er það svo að sá er hér talar hefur eins og margir vita ekkert sérstaklega mikið dálæti á Evrópusambandinu sem slíku, þ.e. því fyrirbæri sem það er, ég tel að það sé ekki grundvöllur til að taka upp evru hér á næstunni, enda eigum við Íslendingar eftir töluverða heimavinnu til að komast að því hvort evran eða einhver annar gjaldmiðill hentar okkur. Allt þetta þurfum við að skoða. Við þurfum að vinna heimavinnuna, herra forseti, og ég hvet til þess að það verði skoðað og við einblínum ekki bara á einn stað.