140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn aukið framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Af því að ræðutíminn er bara fimm mínútur er erfitt að upplýsa og fara yfir allt sem fór fram á fundi í hv. efnahags- og viðskiptanefndar áðan en ég get kannski gert það með því að koma hér reglulega upp og nýta þessar fimm mínútur. Það voru mjög áhugaverðar upplýsingar sem komu fram á fundinum áðan en þó eigum við eftir að fá mikið af upplýsingum og fáum þær vonandi sem allra fyrst. Ég held að allir sem að málinu hafa komið hafi komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að taka málið fyrir eftir áramót og vinna það þannig að sómi væri að.

Lítillega var farið í það hvers vegna Bandaríkjamenn eru tregir til að auka framlög sín til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held að óhætt sé að segja að það séu litlar líkur á því að Bandaríkjamenn þurfi að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þrátt fyrir að þeir séu mjög skuldsett þjóð, þó ekki væri nema vegna þess að það væri mjög erfitt fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að bæta Bandaríkjunum við, sérstaklega þar sem hann er með fangið fullt af öðrum þjóðum. Þar eru tveir meginflokkar. Ástæðan fyrir því að demókratar halda því fram að ekki sé gott að styðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er einfaldlega sú að þeir telja að hann sé handbendi kapítalismans og tæki til að koma einhverju af því sem þeir telja neikvætt við kapítalismann í framkvæmd, á meðan repúblikanar telja að þarna séu fyrst og fremst sósíaldemókratar í Evrópu sem geri eitthvað sem þeim er mjög á móti skapi. Menn geta svo haft skoðanir á því hvort sé rétt og sitt sýnist hverjum um það örugglega.

Fyrir okkur snýst þetta kannski ekki um þann þátt, við erum stofnaðilar, við erum búin að vera í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá stofnun hans og höfum fengið lán frá sjóðnum, 1960, 1967 og 1968 og gott ef ekki líka 1973 og 1974. Árið 1982 fékk íslenska ríkið síðast lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Upp frá því, í 10 eða 20 ár, var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fyrst og fremst að lána og aðstoða lönd sem teljast fátæk og vanþróuð lönd en var lítið í þróunarríkjunum. Þetta hefur breyst í grundvallaratriðum á síðustu árum og síðustu missirum. Flest ríki Evrópusambandsins, a.m.k. mjög mörg, hafa þurft að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er auðvitað vegna þeirrar miklu skuldakreppu og evrukreppu sem ríður yfir álfuna núna sem gerir það að verkum að grípa hefur þurft til margra neyðarráðstafana og neyðarfunda og koma til aðstoðar þjóðum eins og Grikklandi, Spáni og Írlandi. Það er mjög tvísýnt um ríki eins og Ítalíu og jafnvel Belgíu og margir nefna stórveldi eins og Frakkland í þessu samhengi. Svo eru lönd sem standa okkur nær eins og til dæmis Danmörk, og þó að ég eigi ekki von á að Danir þurfi að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins finna þeir svo sannarlega fyrir bankakreppunni.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um stórmál í öllu samhengi. Það er stórt að því leyti til að það snertir ekki bara Ísland, það snertir að minnsta kosti Evrópu og raunar allan heiminn. Þegar verið er með slíkt mál í höndunum ganga menn ekki frá því með hraði, heldur þvert á móti taka sér þann tíma sem þarf. Ég legg til að við gerum það í (Forseti hringir.) þessu samhengi og göngum þannig fram að sómi sé að.