140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þingmaðurinn situr í efnahags- og viðskiptanefnd og sú nefnd var kölluð til fundar kl. sjö í kvöld þar sem mér er tjáð að fulltrúar Seðlabankans hafi komið. Mig langar til að spyrja þingmanninn í framhaldi af því. Á bls. 3 í frumvarpinu er kafli sem heitir Áhrif framangreindra breytinga á fjárhagsskuldbindingar ríkissjóðs Íslands og Seðlabanka, en í þessu máli erum við að tala um tæpa 40 milljarða. Það stendur hér að þessi aðgerð myndi gjaldeyrisinnstæðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þær 9,3 milljónir sem hér þarf að reiða af hendi eða færa á milli við samþykkt þessa frumvarps teljist samt áfram til gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og lítur fjármálaráðherra svo á að þetta sé einungis breyting á samsetningu gjaldeyrisforða okkar sem var tekinn að láni hjá sömu stofnun. Svo er hér fjallað um að þrír fjórðu hlutar þessarar kvótahækkunar sé ekki innt af hendi heldur eignist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn innstæðu í Seðlabankanum sem nemur 28 milljörðum.

Fóru fulltrúar Seðlabankans yfir þetta? Gæti verið um hugsanlegt fullveldisframsal að ræða af okkar hálfu? Þarna er verið að skuldbinda ríkissjóð fyrir rúmlega því sem seinni Icesave-samningurinn hljóðaði upp á og þá var talið að um fullveldisafsal væri að ræða því að við hefðum þá ekki fulla heimild yfir fjárskuldbindingum okkar. Hvaða skoðun hefur þingmaðurinn á þessum vangaveltum? Fóru fulltrúar Seðlabankans eitthvað yfir þetta á fundinum?