140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir andsvarið. Þetta voru mjög málefnalegar og góðar spurningar sem komu frá hv. þingmanni.

Það er alveg rétt að við fórum nokkuð vel yfir einmitt þennan þátt málsins en þó ekki tæmandi og það kom fram í orðaskiptum okkar hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan að enn á eftir að svara ýmsum spurningum.

Stóra málið er einfaldlega það sem snýr að þessum 9,3 milljörðum sem eru um 25% af þessu framlagi. Þetta er sett sem stofnfjárframlag inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og getur reiknast áfram sem gjaldeyrisvaraforði í íslenska bókhaldinu. Vextirnir sem við fáum af þessari upphæð eru 0,14%. Gallinn er sá að við tökum mest af gjaldeyrisvaraforðanum að láni og vextirnir þar eru miklu hærri en 0,14%. Talað er um að þeir séu almennt 5,5%. Það þýðir að einungis kostnaðurinn af því að færa þetta á milli er væntanlega 450 milljónir á ári.

Síðan verð ég að viðurkenna að það kom ekki fram hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði einhverja vexti af þeim 28 milljörðum sem eru í Seðlabankanum, þó svo að rætt væri nokkuð almennt um málið var það ekki beinlínis skoðað. Kannski er það ekki. Ef svo væri og við værum með sömu vaxtaprósentu, væri um að ræða mun hærri upphæð á ári. Þá væru þetta ekki 400–450 milljónir heldur hátt í 2 milljarðar miðað við sömu vaxtaprósentu.

Ég get svo svarað betur í seinna andsvarinu hvernig þetta snýr að því sem er í innlenda hlutanum í Seðlabankanum.