140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þær inneignir eða réttara sagt lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur dregið á sem væri þá innstæða í Seðlabankanum, þá gerist það ekki nema við séum aðilar að því sem heitir Financial transactions plan. Við getum í rauninni ekki verið aðilar að því nema við hættum að skulda sjóðnum sem gerist ekki á næstunni. Einnig þurfum við að samþykkja það sérstaklega. Þeir sem eru aðilar að því eru fyrst og fremst ríki sem hafa gjaldmiðla sem eru gjaldgengir í alþjóðaviðskiptum, eins og dollarar, pund og evra og annað slíkt. Þetta gerist ekki alveg á morgun, a.m.k. þyrftum við að samþykkja það sérstaklega og þyrftum að vera skuldlaus við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Varðandi hina spurninguna, þá fáum við ekki vexti af því að setja inn stofnfjárframlag. Það sem Ísland fær út úr þessu er það að þegar við þurfum að taka lán, ef til þess kemur aftur, verður það hlutfall eða margfeldi af stofnfjárframlagi viðkomandi ríkis. Ef við þurfum að taka meira en sem nemur þessu margfeldi af stofnfjárframlaginu þyrftum við að greiða álag á vexti og annað slíkt.

Það skal tekið fram að þetta er bara sagt á hlaupum eftir hálftímafund. Það væri afskaplega mikilvægt að þetta lægi hér fyrir í nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd þannig að öllum hv. þingmönnum sé ljóst hvað það er sem þeir eru að taka afstöðu til og að hér sé um að ræða, virðulegi forseti, vinnubrögð sem sómi sé að hjá þinginu.