140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[22:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta mikið. Ég vildi bara spyrja hv. þingmann, sem ég þakka fyrir ágæta og skýra framsögu fyrir nefndarálitinu: Var það ekkert í umræðunni og hafa menn engar áhyggjur af rekstrarkostnaðinum? Þegar við höfum samþykkt þessi útgjöld eru þetta orðnir um 2,5 milljarðar á að ég held tveimur og hálfu eða þremur árum. Það samsvarar því að hægt væri að vera með skuldaniðurfellingu sem nemur 5 milljónum á til dæmis 500 fjölskyldur sem ég mundi ætla að gæti verið frekar skilvirkt. Maður heyrir að það sé kannski ekki að koma mjög mikið út úr þessu úrræði, a.m.k. ekki enn sem komið er, þrátt fyrir þennan tíma og það séu mikil vonbrigði meðal annars með framgöngu embættisins gagnvart því sem snýr að endurreikningi erlendra lána o.s.frv. Ég ætla ekki að fara út í það. En eru menn ekki að velta því fyrir sér í hv. nefnd hvort ekki sé skynsamlegra að fara einfaldari og skilvirkari leiðir því að þetta eru orðnar gríðarlegar fjárhæðir? Og þó að mér þyki mjög vænt um lögfræðinga erum við búin að skaffa þeim helst til mörg verkefni núna á síðustu mánuðum og missirum.