140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[22:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að menn úthýsi ekki lengur verkefnum heldur ráði lögfræðinga inn í stofnunina þarf samt sem áður að borga laun. Ég kann ekki að meta hvort sé ódýrara í þessu tilfelli að úthýsa verkefnum eða hafa starfsmennina. Hins vegar munar það örugglega ekki, hvor leiðin sem farin er, þeim upphæðum að það skipti máli í heildarsamhenginu þó svo að ég hvetji embættið til að leita allra leiða til að ná eins mikilli hagræðingu í starfsemina og mögulegt er.

Það sem ég hef áhyggjur af er einfaldlega þetta: Nú eru komnir 2,5 milljarðar í þetta úrræði og maður sér það bara með einföldum útreikningum, og sömuleiðis varðandi skatta sem verið er að setja á fjármálastofnanir, að ef þetta væri nýtt til þess að leiðrétta skuldir hjá skuldugum heimilum værum við að tala um allt annað ástand en er í dag. En mér finnst vera kominn mikill doði yfir millistéttina, sérstaklega yngra fólkið sem er með það miklar skuldir að það sér ekki fram úr þeim. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Í ofanálag er hækkuð skattbyrði og ýmislegt annað.

Ég hef áhyggjur af því að við séum komin í ákveðinn vítahring sem erfitt sé að leysa úr og jafnvel þótt allir séu af vilja gerðir — hv. velferðarnefnd að fara vel yfir þetta mál, þeir sem stýra stofnuninni reyni að gera sitt besta og þeir sem þar starfa o.s.frv., er ég hræddur um að við höfum búið til kerfi sem er gríðarlega dýrt en nýtist lítið. Hv. þm. Lúðvík Geirsson nefndi það meðal annars að þetta hefði ekki gengið upp sem skyldi, sem allir vita.

Ég vildi bara kanna hvort þetta hefði verið rætt, hvort menn ættu kannski að líta á þetta eins og þeir væru að byrja með autt blað og í stað þess að nota peninga (Forseti hringir.) í þessi flóknu úrræði að fara þá í að leiðrétta skuldir þess fólks sem þarf á því að halda.