140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[22:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að árétta það sem rætt var í velferðarnefnd við yfirferð þessa máls og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að lögð er rík áhersla á að hraðað verði sem kostur er uppgjöri og lokafrágangi þess fjölda mála sem liggur fyrir hjá umboðsmanni.

Staðreyndin er sú að á þeim tíma sem umboðsmaður hefur starfað hefur um 600 málum verið lokið. Þar liggja hins vegar fyrir og hafa borist um 4.000 umsóknir eins og ég nefndi áðan. Því er ljóst að mjög stór bunki er ókláraður. Hins vegar er það markmið og stefna embættisins að ljúka mjög stórum hluta þessara verkefna á árinu 2012 og það er auðvitað fagnaðarefni. Það er lagt upp á þann máta að dýrasti rekstrartími stofnunarinnar verði á næstkomandi ári.

Einnig er gengið út frá því að umboðsmaður skili starfsáætlun fyrir þau verkefni sem fyrir liggja og sú áætlun sé klár á miðju ári þannig að hægt sé að áætla rekstrarkostnaðinn á komandi tímabili og endurmeta í raun fjárþörfina fyrir reksturinn. Eins og áætlanir embættisins liggja fyrir í dag byggja þær á því markmiði að ljúka sem stærstum hluta af því sem fyrir liggur á árinu 2012 og það muni svo draga saman í þessum verkefnum þegar á árinu 2013.