140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[22:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit hv. velferðarnefndar um frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sem erum fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. velferðarnefnd skrifuðum ekki nefndarálit, töldum ekki þörf á því. Ég hef getið um það áður að þá koma nöfn okkar hvergi fram eins og við höfum enga skoðun á málinu. Þannig er það samt ekki. Það er eitt atriði sem gerir það að verkum að ég á mjög erfitt með að vera með á þessu áliti. Það kom fram í umræðum um tekjuhlið fjárlaga, það er eiginlega búið að ræða þetta allt undir þeim lið. Eins og ég hef áður getið um getur hv. Alþingi ekki gert neitt annað en að fara eftir þeim lögum, fjárlögunum. Það kemur fram í breytingartillögu að verið er að laga prósentuna að fjárlögunum sem búið er að samþykkja.

En ég get ekki verið með út af lífeyrissjóðunum. Eins og ég hef margoft nefnt í umræðu um fjárlögin er kerfið þannig að það eru eingöngu almennu sjóðirnir sem borga gjaldið, opinberu sjóðirnir borga það ekki. Sjóðfélögum þeirra kemur þetta ekkert við, hins vegar munu sjóðfélagar almennu sjóðanna þurfa að sæta skerðingu út af þessu gjaldi og þurfa auk þess að borga skatta vegna hækkunar á iðgjaldi ríkisins inn í opinberu sjóðina. Mér finnst það bara ekki ganga upp.

Rekstur umboðsmanns skuldara hefur valdið mér vonbrigðum. Þetta virðist vera mjög flókið ferli, þunglamalegt og dýrt. Mér sýnist kostnaðurinn á hverja umsókn vera að nálgast hálfa milljón. Ég held að menn þurfi að taka sér tak í framkvæmdinni á því.

Eins og ég gat um fór mestöll umræðan fram þegar við ræddum um tekjuhlið fjárlaga og ég ætla þá ekki að orðlengja þetta frekar.