140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[22:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir ræðu hennar. Ég vona svo sannarlega að þessi breyting muni ná þeim markmiðum sem þingmaðurinn fór í gegnum og vil að leggja áherslu á að þegar við horfum til þessarar þjónustu séum við að tryggja lægra verð og betri þjónustu í almenningssamgöngum.

Ég hvet stjórnarliða og sérstaklega þá ráðherra sem fara með þessi mál til að huga að því hvernig þeir geta stutt við uppbyggingu almenningssamgangna á Suðurnesjum, hvort það sé eitthvað sem þeir þurfi að skoða frekar varðandi lagasetningu, fjármagn eða annan stuðning við verkefni þar. Við fengum ábendingu í velferðarnefnd í sambandi við atvinnulausa á svæðinu, en þar er atvinnuleysi einna mest á Íslandi og hefur verið mjög lengi viðvarandi erfitt ástand, því að það eru ekki almenningssamgöngur á milli sveitarfélaganna og þótt það séu samgöngur innan Reykjanesbæjar hafa atvinnulausir búsettir í Reykjanesbæ t.d. ekki getað sótt vinnu sem hefur verið í boði í Grindavík og atvinnulausir í Grindavík hafa ekki getað sótt virkniúrræði sem eru í boði í Reykjanesbæ.

Það sama var mér bent á þegar ég var viðstödd úthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni. Fólk sem átti mjög erfitt og átti ekki mat átti í erfiðleikum með að nálgast aðstoðina ef það bjó í öðrum sveitarfélögum en Reykjanesbæ. Þetta skiptir verulega miklu máli, sérstaklega fyrir svæði sem standa illa félagslega eins og Suðurnesin gera að mörgu leyti og hefur verið staðfest í skýrslum frá Velferðarvaktinni.

Ef það er eitthvað sem við getum gert vil ég gjarnan hvetja stjórnarliða til að gera það.