140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessar góðu ábendingar og tek undir með henni, það er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa svæða að geta komist greiðlega á milli staða og sótt sér þjónustu á milli sveitarfélaga. Þessu frumvarpi er einmitt ætlað að styrkja þetta þannig að almenningssamgöngukerfið geti verið skipulagt og skilgreint heildstætt.

Við fengum til okkar oftar en einu sinni fulltrúa frá sveitarfélögum Suðurnesja sem voru mjög ánægðir með þessar breytingar og töldu þær styrkja mjög stöðu sína við að skipuleggja öflugar almenningssamgöngur og halda þeim við.

Ég tek því undir hvert orð hv. þingmanns og held að þetta sé einmitt til þess gert að efla meðal annars almenningssamgöngur á Suðurnesjum.