140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[22:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi ferðamannastaðina held ég að þetta þurfi að koma skýrar fram vegna þess að menn hafa miklar áhyggjur af þessu. Ég hef heyrt að þetta hafi vakið sterk viðbrögð. Ég held að það væri afskaplega skynsamlegt að girða alveg pottþétt fyrir það vegna þess að þeir sem þekkja best til þeirra mála hafa miklar áhyggjur.

Það er mikill misskilningur að útboð og samkeppni sé það sama, það hefur í rauninni ekkert með hvort annað að gera. Þetta snýst um það hvort við sem förum með rútunni þarna á milli finnum fyrir samkeppni, að það sé einhver valmöguleiki fyrir okkur. Það er hægt að bjóða alla þætti út en það hefur ekkert með samkeppni að gera.

Síðan spurði ég hv. þingmann út í olíugjaldið, hvort þetta mundi ekki kalla á 85% endurgreiðslu á olíugjaldi úr ríkissjóði fyrir einkaleyfisleið sem yrði skilgreind sem almenningssamgöngur. Ef það er einhver vafi á því hvet ég til þess að gengið verði úr skugga um það áður en menn ganga frá þessu sem lögum frá Alþingi. Ef hv. þingmaður er ekki með það á hreinu núna þá er það bara þannig, en ég held að það sé ábyrgðarlaust að ganga ekki úr skugga um það vegna þess að allt bendir til þess að þetta muni kalla á slíka endurgreiðslu.

Útboð og samkeppni er ekki það sama. Ég mundi ætla að breyting eins og þessi mundi kalla á umræður, svo að ég vitni í einn öflugan þingmann sem nú er hæstv. ráðherra, Ögmund Jónasson. Ég býst við að ef hann hefði ekki verið í þeim stól sem hann er í núna hefði hann kallað eftir mikilli umræðu um þetta mál.