140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vera með neinar miklar eða sverar yfirlýsingar um flugrútur í flughöfnum en það er bara tilfinning mín að þegar maður kemur í erlenda flughöfn taki maður flugrútuna inn í viðkomandi borg, en látum það liggja á milli hluta.

Meginvangaveltur hv. þingmanns ganga út á þetta: Liggur á að samþykkja þetta frumvarp og þá sérstaklega í ljósi þess að lög um almenningssamgöngur eru í endurskoðun?

Það er rétt, lög um almenningssamgöngur eru í endurskoðun. Ég hef gefið fyrirheit um að í þeirri vinnu verði kölluð að borðinu nefnd eða hópur fulltrúa hagsmunaaðila í ferðaþjónustu til að ræða og kortleggja landamærin á milli ferðaþjónustunnar annars vegar og almenningssamgangna hins vegar, því að það vakir ekki fyrir nokkrum manni að þrengja kost ferðaþjónustunnar sem slíkrar heldur að styrkja almenningssamgöngur.

Já, það liggur á vegna þess að verið er að ganga frá samningum og landshlutasamtök sveitarfélaga telja sig þurfa að hafa þessa heimild núna frá næstu áramótum. Þegar er búið að semja á einu svæði, á Suðurlandi, um almenningssamgöngur, en það er álit margra að skýrari lagastoðir skorti til þess að ganga frá þessum samningum. Til að hafa allt á hreinu viljum við styrkja lagastoðina með þessu frumvarpi.