140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyni að stytta mál mitt eins mikið og ég get. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að flestir kæmust að þeirri niðurstöðu að gott væri að byrja á því að setja hópinn af stað sem greina mun á milli almenningssamgangna og flugsamgangna og fara síðan í lagasetninguna. Ég mundi byrja á því að endurskipuleggja almenningssamgöngur í heild sinni og fara síðan í lagasetninguna en ekki fara fyrst í lagasetninguna og síðan í vinnuna sem ætti að vera grundvöllur lagasetningarinnar.

Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort hann hefði nokkuð á móti því að málið færi fyrir nefndina og menn mundu ræða það betur. Við höfum nokkurn tíma til þess ef vilji er fyrir því, þannig að ég spyr hæstv. ráðherra aftur að því hvort hann hafi nokkuð á móti því. Ég ætla ekki að velta hæstv. ráðherra upp úr fyrri ummælum sem ég man nokkuð vel, enda þokkalega minnugur þegar kemur að ræðum hæstv. ráðherra.