140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[23:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, með síðari breytingum

Þetta mál fjallar eingöngu um eitt atriði, þ.e. ákvæði um hækkun á skrásetningargjöldum í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, og felst breytingin í því að þessi gjöld sem nú nema 45 þús. kr. hækki í 60 þús. kr. Gjaldið hefur ekki hækkað frá árinu 2005 og sú tillaga sem lögð er fram í frumvarpinu heldur ekki í við þá hækkun sem orðið hefur á vísitölu neysluverðs á þessu tímabili. Sú hækkun nemur ríflega 50% en hér er lagt til að skrásetningargjöldin hækki um 33%.

Það er ljóst og við fengum um það upplýsingar að kostnaður umræddra háskóla vegna þjónustu í tengslum við nemendaskrá hefur vaxið talsvert með auknum nemendafjölda á undanförnum árum og hækkunarþörf Háskóla Íslands var nokkru meiri en þessu nam. Þar komu menn fram með ósk um að gjöldin færu í 65 þúsund en niðurstaða hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var að leggja til að hækkunin fari í 60 þús. kr.

Nefndin bendir á að nemendur við Háskóla Íslands hafa í tilefni af þessu frumvarpi lagt áherslu á að námsmönnum sem væru í lánshæfu námi í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna gefist kostur á námsláni fyrir þeirri fjárhæð sem nemur hækkun gjaldanna og má búast við því að stjórn lánasjóðsins taki afstöðu til þess núna á vori komanda.

Nefndin leggur til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt. Það mun hafa þau áhrif að tekjur Háskóla Íslands hækka um 225 millj. kr. og Háskólans á Akureyri um 22,5 millj. kr. Allir nefndarmenn utan einn rita undir þetta nefndarálit en einn nefndarmaður var fjarverandi við afgreiðslu málsins.