140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[23:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi geta þess að hæstv. forsætisráðherra greiddi atkvæði með þessu ákvæði þegar frumvarpið var afgreitt hér í haust. Hafi hún ekki viljað samþykkja þetta ákvæði, greiddi hún gegn sannfæringu sinni hér í september. (Gripið fram í: Rétt.) Allt í lagi — annað eins hefur nú gerst, en það er þá ágætt að það er upplýst.

Ég ætla ekki að standa í stælum við hæstv. utanríkisráðherra eða löngum umræðum um þetta mál. Ég verð þó að geta þess að í sumum tilvikum kann að vera forvitnilegt að eiga upptökur af ríkisstjórnarfundum. Í tilviki þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr þurfum við ekkert að hafa hljóðupptökur á ríkisstjórnarfundum til að verða vitni að þeim deilum sem eiga sér stað innan ríkisstjórnarinnar. Við getum bara hlustað á fréttir á hverjum einasta degi.