140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[00:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar.

Mál þetta var lagt fram á Alþingi 25. nóvember síðastliðinn. Mælt var fyrir málinu og því vísað til atvinnuveganefndar þann 30. nóvember. Nefndin óskaði umsagna rúmlega tuttugu aðila og gaf þeim einungis fimm daga til að skoða málið enda lá þá fyrir að afgreiða þyrfti það fyrir jólahlé.

Fyrsti minni hluti vill taka það fram að hann er sammála efni þeirra kafla í nefndaráliti meiri hlutans sem bera heitin „Fjármálagerningar“ og „Eignarhald á flutningsfyrirtækinu“. Snúa þær athugasemdir sem settar verða fram hér einungis að efni 6. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að stjórn dreifiveitu skuli vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, flutning eða sölu raforku. Lagagreininni er ætlað að tryggja sjálfstæði dreifiveitna meðal annars í ljósi þess að flutnings- og dreifikerfið búi við náttúrulega einokun. Á grundvelli lagagreinarinnar átti sér stað formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. í HS Orku hf., sem annast virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem annast veitustarfsemi fyrirtækisins. Þá liggur fyrir að önnur fyrirtæki hafa farið eða eru að fara í gegnum slík uppskiptingarferli þó svo að Orkustofnun hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort aðskilnaður þeirra sé fullnægjandi. Ekki hefur enn orðið af sams konar uppskiptingu hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem er samt stærsta fyrirtækið á þessum markaði að því leyti að það hefur flesta viðskiptavini.

Í umsögnum og máli gesta á fundum nefndarinnar kom meðal annars fram það álit að þau rök sem bjuggu að baki lagagreininni séu enn í fullu gildi. Telja þeir að Orkuveita Reykjavíkur hafi misnotað þá undanþágu sem fyrirtækið hefur haft frá banni 14. gr. raforkulaga, fyrst haustið 2010 þegar fyrirtækið hækkaði gjaldskrá raforkudreifingar um 40% en raforkusölu um 11%, þrátt fyrir yfirlýsingar um að hækkunarþörfin væri þveröfug, og síðar með undirboðum á raforku nú í haust. Í ofanálag liggur fyrir staðfesting þess að Samkeppniseftirlitið rannsakar nú hvort Orkuveitan hafi brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga og raforkulaga, m.a. með því að nýta einkaleyfisstarfsemi til að styðja við samkeppnisstarfsemi. Af framangreindu má teljast ljóst að í skjóli þeirra frestana sem hafa verið gerðar á gildistöku 2.–4. málsliðar 14. gr. raforkulaga hefur skapast rými sem gefur Orkuveitu Reykjavíkur færi á að misnota stöðu sína. Slík misnotkun hefur alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppnisaðila hennar sem á endanum getur m.a. leitt til hækkana á raforkuverði til neytenda.

Eins og áður sagði hefur meðferð málsins á Alþingi verið knöpp og hröð. Á fundum nefndarinnar var upplýst að beiðni Orkuveitunnar um framlengingu á undanþágu frá 14. gr. raforkulaga barst iðnaðarráðuneytinu ekki fyrr en u.þ.b. fimm vikum áður en starfsáætlun Alþingis gerði ráð fyrir að þingstörfum yrði lokið fyrir jólahlé. Málflutning fulltrúa Orkuveitunnar á fundum nefndarinnar mátti skilja svo að eigendanefnd Orkuveitunnar hefði ekki fjallað um málið á fundum sínum á þessu ári eða að minnsta kosti hefði slíks ekki verið getið í fundargerðum hennar. Kom skýrt fram að starfsmenn hefðu nokkurn veginn lokið undirbúningsvinnu vegna aðskilnaðar en eigendanefndin hefði ekki enn ákveðið á hvaða félagsformi rekstur fyrirtækisins ætti að vera. Afleiðing þessa varð sú að tíminn sem Alþingi hafði til að vinna málið var mjög knappur. Alltaf lá fyrir að ef lengja ætti í undanþágutímabilinu þyrfti það að gerast fyrir áramót. Að mati 1. minni hluta eru framangreind vinnubrögð í besta falli ámælisverð og í þeim felst ákveðin lítilsvirðing við Alþingi og löggjafarstarfið.

Framangreindu til viðbótar vakti það strax athygli nefndarmanna að lagt var til að undanþága frá 14. gr. raforkulaga yrði í þetta sinn til tveggja ára, en eins og hér hefur komið fram var þessu síðast frestað í fyrra, árið 2010, og þá til eins árs og fylgdu fögur fyrirheit um að það yrði í allra síðasta sinn sem þessu yrði frestað og var fyrirtækinu vel gerð grein fyrir því að þetta yrði í síðasta sinn. Nú er aftur gert ráð fyrir því að undanþága verði veitt til tveggja ára, þ.e. til 1. janúar 2014. Á fundum nefndarinnar kom svo fram að Orkuveitan hefði aðeins óskað árs framlengingar, iðnaðarráðherra hefði lagt hið sama til en í meðförum ríkisstjórnarinnar hefði málið breyst þannig að lögð var til tveggja ára framlenging.

Þetta gefur fyrirtækinu ákveðið svigrúm, virðulegi forseti, til þess að misnota aðstöðu sína áfram og það er í raun alveg óskiljanlegt að þegar beiðni fyrirtækisins nær eingöngu til eins árs og ráðherra málaflokksins leggur til við ríkisstjórn að undanþágan gildi í eitt ár, að ríkisstjórnin skuli að eigin frumkvæði fara í þessar breytingar. Enn ótrúlegra er í raun og veru að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki hafa tekið tillit til athugasemda minni hlutans við þetta atriði og haft framlenginguna í eitt ár, sérstaklega í ljósi þess að fyrirtækið hefur greint frá því að það hyggist ljúka þessari vinnu á vormánuðum. Hér hefur verið skapað ákveðið svigrúm fyrir þetta fyrirtæki til að misnota aðstöðu sína enn lengur ef því þykir þurfa svo í sína þágu.

Það má líka draga þá ályktun að ríkisstjórnin treysti því ekki að Orkuveitan standi við áform sín um aðskilnað. Þarna er í raun verið að búa til hvata fyrir fyrirtækið til að halda áfram á sömu braut.

Eins og fram hefur komið rannsakar Samkeppniseftirlitið hvort Orkuveitan hafi brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga og raforkulaga. Rannsóknin hófst á haustmánuðum 2010 og stendur enn. Í máli fulltrúa Samkeppniseftirlitsins sem mætti á fund nefndarinnar kom fram að sökum anna vegna margra mikilvægra mála hefði ekki tekist að ljúka starfinu en reiknað væri með að því lyki fljótlega eftir áramót. Að mati 1. minni hluta er það til verulegs vansa að þessari rannsókn skuli ekki vera lokið og lýsir hann hér með vonbrigðum sínum með þá stöðu.

Undir nefndarálitið skrifa Jón Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson.