140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

raforkulög.

305. mál
[00:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (hækkun raforkueftirlitsgjalds). Þetta er mál nr. 305 og er á þskj. 527.

Virðulegi forseti. Ég mun stikla á helstu atriðum í nefndarálitinu en með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á fjárhæð raforkueftirlitsgjalds sem kveðið er á um í 1. mgr. 31. gr. raforkulaga. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði vegna raforkueftirlits og er greitt annars vegar af flutningsfyrirtækinu, þ.e. Landsneti hf., og hins vegar af dreifiveitum. Gjaldið nemur nú 0,2 aurum á hverja kWst fyrir flutningsfyrirtækið og 0,5 aurum á hverja kWst fyrir dreifiveitur. Með frumvarpinu er lagt til að gjaldið verði tvöfaldað til að standa straum af auknum kostnaði vegna raforkueftirlits, þ.e. að gjaldið verði 0,4 aurar á hverja kWst fyrir flutningsfyrirtæki og 1 eyrir á hverja kWst fyrir dreifiveitur.

Það má segja, virðulegi forseti, að það sem verið er að gera þessar stundir sé svolítið að hætti hússins. Hér er verið að hækka gjaldið um örfáa aura en engu að síður er áætlað að þessi gjaldskrárhækkun muni gefa tekjur af raforkueftirlitinu og hækka þær um 50 millj. kr. Það kemur fram frá hendi iðnaðarráðuneytisins að af áætluðum gjaldskrárhækkunum, ef þeim verður velt út í verðlagið, gæti kostnaðarhækkun hefðbundins heimilis numið 30 kr. á ári miðað við meðalársnotkun heimilis upp á 4.500 kWst. Það var einnig mat fulltrúanna að ákveðnar líkur væru á því að framangreind hækkun rataði ekki öll út í verðlag þar sem með samþykkt frumvarpsins mundu líkur á að markmið um að breyta setningu tekjumarka næðust aukast verulega sem yrði þannig til hagræðingar í rekstri dreifingarfyrirtækja.

Á þetta vil ég leggja mikla áherslu, virðulegi forseti, vegna þess að með þessari hækkun og því að Orkustofnun stefnir að því að stórauka raforkueftirlit sitt eftir ábendingum sem þeir fengu frá Orkustofnun Noregs má standa betur að því, á bremsunni í raun og veru, gagnvart tekjumörkum, gagnvart orkufyrirtækjunum til að koma í veg fyrir frekari hækkanir. Þetta raforkueftirlitsgjald var lækkað með samþykkt laga nr. 67/2008, um breytingu á raforkulögum, en það hafði þá staðið óbreytt frá gildistöku raforkulaganna.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði vísa ég í nefndarálitið á þskj. 527 við þetta mál sem er allítarlegt en ég fer ekki í gegnum það allt nú. Í ljósi alls framangreinds og þess sem stendur í nefndarálitinu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir það rita auk mín, formanns og framsögumanns nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Ólína Þorvarðardóttir og Björn Valur Gíslason, allir hv. þingmenn.